Húnavaka - 01.05.2011, Side 99
H Ú N A V A K A 97
RAGNHEIÐUR BLÖNDAL frá Brúsastöðum:
Kynlegir kvistir
Á æskuheimili mínu, Brúsastöðum í Vatnsdal, voru um alllangt skeið karl og
kona, ógift sem fengu að vera í húsmennsku sem kallað var. Man ég glöggt eftir
þeim þótt liðin séu um sjötíu og fimm ár.
Þau hétu Jónína og Guðmann og höfðu hluta af baðstofunni heima til
íbúðar. Suðurendi var sá hluti kallaður. Einnig höfðu þau fjárhús fyrir
kindurnar sem ekki voru mjög margar, nokkrir tugir kannski, það var nú
stundum lotið að litlu í þá daga. Þessi fjárhús voru kölluð Guðmannshús til
fjölda ára, jafnvel þótt Guðmann væri löngu fallinn frá.
Hún kom vestan af Ísafirði en hann var þarna úr sveitinni. Jónína valdi
þeim nú eiginlega nöfn en hún var dálítið kostuleg og sambúðin ekki alltaf
árekstralaus. Eitt sinn er þau höfðu jagast lengi komst hún þannig að orði að
hún væri nú ekki sú ,,bölvuð lumma“ að hún léti svona ,,tröppufót“ eins og
hann segja sér neitt fyrir verkum. Þessi nöfn festust dálítið við þau, þó
skírnarnöfnin væru nú notuð spari en þau voru ekkert að kippa sér upp við
þetta.
Tvo hesta áttu þau, Rauð og Vind, voru þeir notaðir til smávika en oft bar
Guðmann heybaggana sína á sjálfum sér heim af túnblettinum sem ekki var
stór. En slægjur höfðu þau ,,suður í flóa” sem kallað var. Þar var votlent og
bisuðu þau við að koma heyinu á þurrt. Ekki áttu þau nema ein gúmmístígvél
en til að bjarga málum notaði karlinn þau og bar kellu sína á bakinu yfir
keldurnar. Þá orti Kristján Sigurðsson (en hann var barnakennari í Vatnsdalnum
í 40 ár) sem var vel hagmæltur og vísan var svona:
Ennþá Lumma mæta má
miklu eftirlæti,
yfir svaðið svamlar á
sínum Tröppufæti.
Haust eitt áttu þau að leggja til mann í göngur í Víðidalsfjallið einn dag.
Tók karl þá hestinn, Vind, lagði á en aldrei sást hann fara á bak allan daginn
og kom teymandi heim um kvöldið.
Þau voru að áliti manna ákaflega sparsöm og nýtin en í nefið tóku þau bæði
óspart. Guðmann þrælaðist við að skera tóbakið niður á tréhnalli stórum og
var komin djúp laut í hann af notkuninni. Síðan setti hann rulluna í hrútspung,
nuddaði punginn svo og elti alveg miskunnarlaust þar til honum fannst nóg