Húnavaka - 01.05.2011, Page 100
H Ú N A V A K A 98
komið. Þetta var mikið og seinlegt verk en mér, lítilli stelpu, fannst afar gaman
að fylgjast með vinnubrögðunum. Svo fékk Lumma tóbak í glasið sitt sem hún
geymdi í pilsvasanum.
Eitt sinn fór gamla konan að líta eftir í búrinu en þar átti hún trékvartil sem
í voru söltuð svið og voru nú ekki daglega notuð. Leist kellu víst ekki vel á
innihaldið því eftir henni var haft: Þau eru ekki nærri góð, andskotans sviðin,
ég fer bara að gefa honum Guðmanni þau á sunnudögum.
Mikið var lesið í Suðurendanum og eitt sinn á aðfangadagskvöld las
Guðmann ósleitilega og upphátt fyrir Lummu sína. Var haft orð á því daginn
eftir að jólaguðspjallið hjá þeim hefði verið afskaplega langdregið og lengra en
í öðrum biblíum baðstofunnar. Já, sagði gamla konan, hann var að lesa svo
óskaplega skemmtilegan ,,veifara“ (reyfara), ég held að hann hafi heitið
Leyndardómar Parísarborgar.
Tvö börn áttu þau, sitt í hvoru lagi, sem voru orðin fullorðin. Guðmann átti
son sem ég veit ekki deili á en Jónína átti dóttur, Jóhönnu, ,,með honum
Thorarensen gamla“ eins og hún sagði. Hann var kaupmaður í Kúvíkum í
Strandasýslu en hún hafði verið ráðskona hjá honum. Jóhanna þessi bjó á
Skagaströnd.
Þegar Guðmann var allur fór Jónína til þessarar dóttur sinnar. Leið svo
langur tími en þá kom gamla konan í heimsókn að Brúsastöðum, uppdubbuð
og fín. Við ætluðum varla að þekkja hana, hún var svo breytt. Þá sagði hún um
sjálfa sig: Já, ég var helvítis bölvað kvikindi en nú er ég orðin besta
manneskja.
Raunar var hún alltaf besta manneskja þó hún talaði svona, hún gat líka
verið afar skemmtileg og fyndin, það var oft hlegið að henni. En lesendur bið
ég að afsaka orðbragðið. Þau töluðu bara svona og blessuð sé minning
þeirra.