Húnavaka - 01.05.2011, Page 108
H Ú N A V A K A 106
eitthvað nýtt á okkur og mikil var nú gleðin yfir öllu sem við fengum. Þegar
þessu var lokið, var borinn inn jólamaturinn. Var það hangikjöt og laufabrauð
og það besta af öðrum mat sem til var í búrinu og svo rúsínugrautur á eftir.
Oft slagtaði faðir minn lambi eða geldri á fyrir jólin til að hafa eitthvert
nýmeti.
Aldrei mátti spila á spil á aðfangadagskvöld en á jóladag og annan og þriðja
í jólum var mikið spilað, máttu þá allir vaka eins og hver vildi og gat. Á milli
klukkan 10 og 11 á aðfangadagskvöld var borið inn súkkulaði og kaffi með
allslags kökum, jólabrauði og rúsínulummum. Um tólfleytið var farið að hátta,
það var siður heima að láta loga ljós alla jólanóttina og sama var gert á
nýársnótt. Á jóladag var alltaf farið í kirkju ef veður leyfði.
Mannlíf í Hvammkoti
Ég hef oft hugsað um allan þann mat sem til var í Hvammkoti á uppvaxtarárum
mínum, þar sem voru 11-12 manns í heimili allt árið. Þar fór saman nýtni og
ráðdeild. Af því að faðir minn hafði alltaf vinnumann við sjó gat hann haft
nóg fiskmeti og þar var allt hirt, sundmagar, hrogn og kútmagar var verkað og
súrsað og var það góður matur. Þá var alltaf til nóg af harðfiski og saltfiski til
vetrarins. Lifur var brædd til manneldis og mikið var af sjálfrunnu lýsi sem
kindum var gefið í heyið sitt. Ég held þeim hafi þótt það betra en taða. Allir
smáfiskhausar voru soðnir og gefnir kúnum en stórir hausar voru hertir og
barðir til matar, sumt gefið hrossum. Sama var með landafurðir, mikil nýtni
með allt og engu hent. Sjálfsagt þótti að svíða allar kindalappir og hafa í sultu
og súr og var það góður matur. En nú er öllu slíku hent og mörgu fleiru sem
mætti hafa til matar.
Mikið var um gestakomur í Hvammkoti. Þótti þá sjálfsagt að gefa kaffi eða
mat ef svo bar við og oft voru líka næturgestir þó að húsakynni væru lítil. Við
sum systkinin vorum þá látin sofa frammi í heytóft til að gestirnir gætu fengið
rúmin okkar. Þetta var bara gaman því að þá máttum við ráða hvenær við
færum að sofa og lékum við okkur oft langt fram á nótt, aðallega í feluleik í
heygeilum og skotum þar sem hægt var að fela sig. Þetta fannst okkur
skemmtileg tilbreyting.
Næsti bær við Hvammkot eru Örlygsstaðir, þar bjó föðursystir mín,
Sigurlaug Kristjánsdóttir, og maður hennar, Björn Guðmundsson, síðar
hreppstjóri. Faðir minn og Björn voru alla tíð góðir vinir og var mikill
samgangur milli bæjanna. Örlygsstaðir eru stór jörð og fékk faðir minn slægjur
í Örlygsstaðalandi eins og hann þurfti með því Hvammkot er lítil jörð.
Jarðirnar liggja saman og allar skepnur gengu saman af báðum bæjunum.
Vissi ég aldrei hvað var Örlygsstaðaland eða Hvammkots.
Börnin á Örlygsstöðum voru jafnmörg og í Hvammkoti og lékum við
krakkarnir okkur mikið saman á bæjunum til skiptis. Okkur var oft boðið um
hátíðar að Örlygsstöðum því að þar voru miklu stærri húsakynni. Var þá farið
í leiki og þeir spiluðu sem það vildu en fullorðna fólkið ræddi saman eða tók í