Húnavaka - 01.05.2011, Page 110
H Ú N A V A K A 108
frá landi, rétt innan við Höfðakaupstað, og komu þar upp öðru hverju tveir
hvalir til að blása. Vildu menn í kaupstaðnum reyna að vinna á þeim og létu
útbúa tvær sveðjur með löngum sköftum til að stinga með hvalina þegar þeir
kæmu upp til að blása. Þeir drógu lítinn bát að vökinni og settu hann á flot.
Voru fjórir menn í honum, tveir undir árum og tveir með sveðjurnar, tilbúnir
að stinga hvalina. Þeim sóttist verkið seint því að hvalirnir voru lengi í kafi á
milli en oftast þegar þeir komu upp í vökina tókst að reka sveðjurnar í þá. Loks
var svo af öðrum hvalnum dregið að hann gat ekki stungið sér og mikið blóð
var komið í vökina. Hinn fór þá undir ísinn og lagði ekki í að koma oftar upp
í vökina og drapst. Eftir tvo eða þrjá daga blés hann upp og sprengdi af sér
þykkan ísinn. Var þá búið að vinna á þeim sem eftir varð í vökinni. Menn
byrjuðu á því að skera þann sem hafði sprengt af sér ísinn enda var honum
hættara við skemmdum. Komu menn nú víða að til að fá sér hval og það úr
öðrum sýslum. Kom mörgum vel að fá þessa björg í bú í öllum þessum
harðindum. Kristján bróðir minn var einn af þeim er vann við hvalskurðinn
og var það ekkert smáræði sem hann fékk í sinn hlut.
Þennan sama ísavetur gekk bjarndýr á land í Höfðakaupstað að næturlagi,
snuðraði í kringum nokkur hús og fór svo út á ísinn aftur. Föl hafði gert um
nóttina svo að hægt var að rekja slóð dýrsins um morguninn. Fóru nú þrír
menn með byssur á eftir dýrinu út á ísinn. Höfðu þeir gengið lengi þegar þeir
fundu það. Var það örstutt frá þeim þegar þeir sáu það fyrst enda var það
samlitt ísnum. Dýrið stóð grafkyrrt og horfði á mennina. Skaut einn mannanna
að dýrinu en hitti ekki. Dýrið stóð kyrrt og stappaði niður öðrum hramminum.
Þá skaut annar og hitti það í hjartastað og hljóp þá bangsi til hliðar nokkra
metra og datt síðan dauður niður. Var hann dreginn að landi og gerður til
góða. Varð ég svo frægur að smakka á kjötinu og fannst mér ekkert varið í það,
það var eitthvað svo bragðlaust, fitan stinn og skjannahvít og kjötið í rákum á
fitunni. Heyrði ég að feldurinn hefði verið seldur til Reykjavíkur fyrir 300
krónur sem voru miklir peningar í þá daga.
Mannýgu nautin
Í sex ár var það starf mitt að sitja yfir ánum á sumrin þegar fært var frá. Þótti
mér það mjög leiðinlegt verk og mest fyrir það að ég var klukkulaus. Oftast hélt
ég mig á svipuðum stað með ærnar, hjá Örlygsstaðaseli. Ég varð að miða
sólina við kennileiti til að sjá hvenær ég mátti fara heim með ærnar en þegar
ekki sást til sólar varð ég að giska á klukkuna og kom ég þá stundum of
snemma heim með ærnar og varð að standa yfir þeim í heimahögum þar til
kominn var mjaltatími. Talinn var klukkutímagangur frá Hvammkoti að
Örlygsstaðaseli og rak ég ærnar þá leið á hverjum morgni og heim að kvöldi.
Nestið sem ég hafði með mér til dagsins var þriggja pela flaska með sauðamjólk,
hangikjötsbiti eða saltkjöt, harðfiskur, slátur, brauð og smjör.
Örlygsstaðasel var í eyði fyrstu árin sem ég sat yfir ánum en þegar ég var 11
ára byggðu þar upp gömul hjón, María Jónsdóttir og Sigurjón Hallgrímsson.