Húnavaka - 01.05.2011, Page 113
H Ú N A V A K A 111
á þekjunni. Þau lögðust á hnén og sleiktu þessa einu rúðu sem var á þekjunni,
bölvandi og slefandi.
Fyrsta hrinan hefur líklega staðið um tvo tíma, þá datt allt í dúnalogn.
Sigurjón fór út til að gá eftir nokkra stund því að hann vonaðist til að nautin
væru farin. En þá komu þau eins og hendi væri veifað upp úr hvamminum
austan við hólinn eða lautinni fyrir sunnan. Engu var líkara en þau væru að
fela sig til að narra okkur út og í hvert skipti sem þau komu úr fylgsnum sínum
hófst sami atgangurinn. Kofaveggirnir voru lágir að utan en yst voru göngin
hlaðin upp báðum megin. Voru nautin búin að hnoða svo veggkampana
frammi við dyr að þau gátu troðið hausunum í gegn. Inni í miðjum kofanum
var biti milli langbanda og bað Sigurjón okkur Ragnheiði að fara upp á bitann
og vera þar ef nautin kæmust inn. Við Ragnheiður vorum bæði organdi og
reyndum að komast upp á bitann. Ég óttaðist ekki svo mjög að nautin kæmust
inn um dyrnar og göngin en var miklu hræddari um að þau kæmust niður um
kofaþekjuna. Stundum kíkti ég fram til að gá hvort Sigurjón væri ekki á lífi en
hann hélt sig alltaf frammi til að fylgjast með dyrunum.
Umsátur nautanna stóð með litlum hléum til klukkan hálftólf um kvöldið,
þá fóru þau loks vestur yfir ásinn. Annað nautið reyndist vera frá Króksseli,
þriggja vetra og var rautt, með stórum hornum, kýrin var líka frá Króksseli.
Hitt nautið var fimm vetra, frá Spákonufelli, svart, hjálmótt og með stórum
hnýflum. Það átti að vera í hagagöngu í Króksseli þetta sumar en tæpur
klukkutíma gangur er þangað frá Örlygsstaðaseli.
Þegar nautin voru nú loks farin vildi ég fara heim en það vildi Sigurjón ekki
með neinu móti, sagði að ég væri ekki fær um það eftir það sem á undan var
gengið og hann myndi ekki sleppa mér fyrr en ég yrði sóttur. Ekkert vissi ég
hvað orðið hafði af ánum. En klukkan hálfeitt um nóttina birtist Kristján
bróðir og varð þar fagnaðarfundur. Hann sagði að ærnar hefðu allar skilað sér
heim um áttaleytið en til mín sást ekki. Allir urðu hræddir því að margt gat
komið fyrir og var farið að leita í næsta nágrenni. Loks fór Kristján út að Seli
og á leiðinni sá hann nautin álengdar við svokallað Brunavatn. Sigurjón sagði
Kristjáni hvað gengið hefði á um daginn og sýndi honum ummerkin. Ég fór
svo heim með Kristjáni og sá nautin í fjarska. Mér var fagnað við heimkomuna
eins og heimtur úr helju og næsta morgun var mér sagt að vera með ærnar í
heimahögum þar sem ég gæti séð þær að heiman. Faðir minn sagðist ætla að
skreppa út að Króksseli og hitta nafna sinn, Guðmund bónda, sem ábyrgð bar
á nautunum.
En nautin höfðu engu gleymt um nóttina. Klukkan sex morguninn eftir
komu þau aftur að Örlygsstaðaseli og enn hófst atgangur mikill. Vöknuðu þau
Sigurjón og Ragnheiður við vondan draum. Þessi lota nautanna stóð til
klukkan um tíu um morguninn en þá fóru þau niður í hólmann þar sem ég
hafði haft ærnar daginn áður. Sigurjón lagði í skyndi af stað með Ragnheiði
litlu burt úr Selinu. Tekur hann með sér spýtukybbi sem hann ætlar að verjast
með og heldur í gagnstæða átt við nautin. Fer hann stóran sveig suður fyrir
Strýtu og þar langt vestur fyrir ásinn og tekur stefnu á Krókssel. Þegar þau eru
á móts við hólmann en þó miklu vestar og í hvarfi, sjá þau nautin koma upp