Húnavaka - 01.05.2011, Page 116
H Ú N A V A K A 114
ELÍSABET ÁRNADÓTTIR, Blönduósi:
Saumastofurómantík
Myrkrið lá yfir þorpinu eins og dökk voð einhvers staðar mitt á milli himins og
jarðar. Snjórinn endurkastaði bláleitri birtu tunglsins sem blikaði kankvíst
þarna óralangt uppi í kaldtærri hvelfingunni, greinilega með vaxandi veldi þar
sem bungan fyllti greipina, ef gripið var til þess með hægri hendi. –
Norðurljósin mynduðu logasveipi á dimmbláum næturhimninum, þar voru
sálir framliðinna að leik og sveipuðu um sig gegnsæjum slæðum úr glitvefnaði
guðanna.
Við ströndina bar aldan hvítan fald sem stöðugt og óþreytandi laugaði
blakkan sandinn og bleytti fætur bergsins sem skagaði fram og veitti höfninni
hlé fyrir norðanáttinni.
Inn með víkinni loguðu götuljósin eins og lýsandi talnaband en í hliðargötum
mátti sjá rauðar týrur sem eins og dottuðu eða drógu ýsur, vitandi það að fáir
bæjarbúar væru á ferð á þessum tíma nætur svo óhætt myndi að sofa á
verðinum.
Inni á loftinu þar sem saumastofan var til húsa var allt með kyrrum kjörum.
Saumavélar voru yfirbreiddar og gólf sópuð og þvegin fyrir helgina.
Hálfsaumaðir jakkar og alls kyns ullarflíkur lágu í stöflum á borðum og héngu
á herðatrjám í löngum röðum. Geislar frá tunglinu lágu á ská inn á gólfið eins
og gullreimar svo einhvers konar ævintýrablær hvíldi yfir stofunni og þögnin
var þrúgandi.
Einn geislafingur benti inn á slána þar sem jakkar no: 8026 héngu eins og
nýkomnir af snyrtistofu, kembdir og stroknir, með silkifóðri og fallega
stungnum, gylltum lás.
Allt í einu mátti greina smáþyt eða andvarp frá slánni. Nokkrir jakkar sem
héngu saman og voru í hvíldarstöðu teygðu upp ermarnar og hálsmálið gaf
frá sér geispa.
-- Heyrðu, vinur 8026, hvað erum við nú annars búnir að hanga lengi á
þessari bjánalegu slá sem ekkert gerist á?
-- A-ha, þú segir nokkuð, svaraði sá aðspurði, sumir okkar eru búnir að
hanga hér síðan fyrir jól. Ég veit ekki hvað stjórn þessarar stofu hugsar, að fara
ekki að senda okkur á markað eins og félaga okkar. Þeir voru nú bara sendir
með flugvél alla leið til Ameríku. En hvað segir þú, 4712, hvernig gengur hjá
þér?
-- O-jæja, ekki get ég nú hælt fjörinu en annars finnst mér furðu góður andi
innan þessara veggja en tilbreyting væri það nú að fá að líta ögn í kringum sig,
svo ég tali ekki um að sigla.