Húnavaka - 01.05.2011, Blaðsíða 118
H Ú N A V A K A 116
Allar mislitu tuskurnar gægðust upp úr plastpokanum. Pokinn reyndi að
hafa hemil á þeim en þær ýttu hver við annarri svo pokinn þandist út og fékk
magapínu. -- Æ, æ, stundi hann, þetta var nú óþarfi.
En tuskurnar voru ekki að hugsa um það. -- Hvað segir þú, hver segir það?
spurðu þær einum rómi.
-- Já, ég bara veit það. Ég finn það á því hvernig hún heldur um skaftið á
mér, svo bara hlýtur hún að vera það, stelpur eru alltaf skotnar í einhverjum.
35-03-01 lyfti gætilega hettunni og renndi niður lásnum. -- Úff - en sá hiti.
Þeir eru ekki að spara olíuna þarna niðri þegar lygnt er og stillt veður, þó næði
stundum gegnum merg og bein af trekki og kulda. Það væri betra minna og
jafnara. Ég er líka óvön þessari veðráttu hér norðanlands, já, þið skiljið, ég er
sko að sunnan. Ég er ofin suður á Álafossi og ekki undir það búin að dvelja hér
lengi. En því miður, ég heyri sitthvað um mig í saumaskapnum. Vasar og
rennilás eru þeim erfiður ljár í þúfu. Overlokk-konan segir að vont sé að láta
bekkina standast á. Já, það er flest hægt að láta finna sér til eins og voðin mín
er yndisleg og bekkurinn frábær. Svo strauk hún tilgerðarlega niður boðungana
og renndi aftur upp lásnum. Já, það er betra að gæta sín á ofkælingu.
Hálfsaumaður anorakki, úr hvítri voð með beislitum bekkjum í ermunum,
hélt uppi lausum vasa sem í voru nokkrir títuprjónar. -- Endemis frágangur er
þetta að skilja svona við mig yfir heila helgi. Ekki nema það þó, ekki hægt að
hreyfa sig fyrir títuprjónum. Réttast væri að tína þá alla í burtu svo að frúin
mín verði að byrja á því á mánudaginn að leita að vasanum og festa hann á.
Annars heyrðist mér hún eitthvað vera að tala um þorrablót. Líklega sér hún
þá ekki of vel á mánudaginn.
Klukkan á veggnum tifaði rólega eins og ekkert af þessu kæmi henni hið
minnsta við. -- Ég segi nú bara fyrir mig að hvergi vildi ég fremur vera. Það er
sko engin hætta á að ég gleymist, þó sumir séu kannski lítils metnir en ég vil
engan særa. Svo færði hún stóra vísinn fram um heila mínútu. -- Þetta geri ég
til að drýgja tímann fyrir starfsliðið. Ég verð bara að segja það að hvergi er
betur unnið en hér svo ég er upp með mér af því að vera ein úr hópnum.
Títuprjónadósirnar fóru allt í einu að hlæja svo undir tók í dósunum. --
Munið þið þegar gáturnar voru efst á baugi, þegar ein konan sagði eftir miklar
vangaveltur. „Æi, þetta er einhver helvítis hæna.“ Þá var sko hlegið.
-- Já, sögðu skærin, eða þegar mörsugur á miðjum vetri var á dagskrá.
„Messað var hjá séra Pétri“ laumaði þá ein út úr sér. Það lá við að það stæði í
sögumanni.
Allt í einu fór síminn að hringja hátt og hvellt.
-- Hver getur verið að hringja á þessum tíma? hvíslaði stærðar kefli með
nælontvinna að öðru kefli með gráan bómullartvinna vafinn um sig.
-- Og ætli það sé ekki einhver sem hefur misgripið sig á tímanum.
Aumingja síminn hrökk upp af værum blundi svo að tólið var nærri dottið
á gólfið. -- Dæmalaust andvaraleysi er þetta að vekja mig svona hastarlega.
Pennarnir í glerkrukkunni dönsuðu stríðsdans og hrópuðu. -- Fram, fram
fylking og blýantar og tússlitir tóku undir svo kliður og háreysti barst um alla
stofuna.