Húnavaka - 01.05.2011, Page 119
H Ú N A V A K A 117
Saumavélarnar móktu hver í sínu skoti og auðheyrt var á andvörpum þeirra
að þeim fannst nóg um hávaðann. Málböndin töldu 1, 2, 3, ... alveg uppí 150
en lengra náði reiknikunnátta þeirra ekki.
Inni í innsta horni fóru rennilásarnir allt í einu að renna sér upp og niður.
-- Ég er fæddur á Hellu, þusaði einn þeirra. -- Ég líka, ég líka, kvað við úr
öllum kössunum, vitið þið að hann pabbi okkar kom fram í Gestaleik í vetur?
Fóðurshaugur dæsti fyrirlitlega og tautaði. -- Það getur nú hvaða asni sem
er komist í sjónvarpið.
-- Ónei, ekki þú, kvað við margraddað og lásarnir hristu hringana, þú ert
bara öfundsjúkur.
En fóðurshaugarnir tóku höndum saman og settu upp silkigljáandi
þóttasvip. -- Við erum ánægðir með að allir fínir jakkar eru fóðraðir og þá
kemur til okkar kasta. Það er sko fínna en að sýna sig á skjánum hjá hálfsofandi
körlum og kerlingum.
Þegar hér var komið tók vinnuborðið í salnum að stappa niður fótunum svo
bunki af hálfsaumuðum flíkum no: 555 varð að halda sér svo þær misstu ekki
jafnvægið og dyttu á gólfið.
-- Stilltu þig, gæðingur, kvökuðu þær, hvað heldur þú að fólkið í búðinni
haldi eiginlega?
-- Vitlausar getið þið verið. Hver haldið þið að sé í búðinni á þessum tíma?
Einhver sem ætti þá skilið að verða ærlega hræddur. Nú er einmitt rétti tíminn
til að skemmta sér. Svo tók borðið heljar hopp og brátt voru bæði borð og
stólar farin að dansa rokk og slökkvitækið sló taktinn svo glumdi í.
Nokkur laus fóður, sem héngu hvert yfir öðru á herðatré, púuðu samtímis
svo tvinnaspottar og lausir endar þyrluðust yfir jakkahlaðann á borðinu og svo
voru þeir rafmagnaðir að brestir og eldglæringar liðu um loftið.
Gínan hafði til þessa ekkert látið til sín heyra en nú renndi hún sér fram á
gólfið og brosti. -- Brjóstin út og maginn inn, þetta er nýjasti limbóinn og nú
höldum við partí.
Það small í takkanum á gufupressunni þegar hún skellti sér í gang. -- Ég skal
svei mér hita mig upp svo um munar. Hér er enginn til að halda mér niðri og
passa gufuna svo nú get ég látið móðan mása.
Rafmagnsmælirinn tók viðbragð svo hjólið innan í honum snerist svo hratt
að varla auga á festi. -- Hvað skyldi hún endast lengi til að reka mig svona
áfram? Skárra er það, ekki einu sinni friður um helgar.
Hraðsuðuketillinn stóð á borðinu barmafullur af vatni og söng hástöfum.
-- Mikið lifandis skelfingar ósköp er gaman að vera svolítið hífaður.
Geymirinn glotti drýgindalega og tautaði. -- Já, fullir kunna flest ráð.
Inniskórnir stóðu í fallegri röð frammi á gangi og ræddu saman í ákafa. --
Ég segi það sko bara alveg satt, ég er búinn að ganga mig götóttan á gólfunum
hérna en þetta og þvílíkt hefur aldrei skeð hér fyrr. Þetta sagði gamall rauður
inniskór, heldur ræfilslegur á að líta.
-- Já en einhvern tíma verður allt fyrst, sagði hvíti nýkeypti inniskórinn og
gat varla staðið kyrr, hér höfum við herra og hvaðeina svo við ættum bara að
taka sporið.