Húnavaka - 01.05.2011, Page 120
H Ú N A V A K A 118
-- Ég veit ekki hvað segja skal, sögðu brúnir karlmannssandalar og lyftu sér
upp á hælana, húsbóndi minn er ekki heima svo ég - ja, ég er alls ekki viss.
Hvítir og gulir kvenskór, mjúklegir á að líta, stigu varlega fram og stilltu sér
upp við hliðina á karlmannsskónum. -- Kannski við fáum okkur snúning, góði
minn, þetta er kjörið tækifæri. Við förum ekki svo oft út að dansa.
-- Kvenskórnir eru í meirihluta svo ekki þýðir að mögla, hrópuðu bláir skór,
komnir á miðjan aldur og slettu lausum sóla upp í ilina.
-- Allt í lagi, við steppum niður stigann og upp aftur, það hreinsar lóna úr
loftgötunum, sögðu hvítir, nasbitnir skór og brostu svo að skein í tannlausan
hælinn.
Skór með litríkum laufblöðum tóku til að dilla sér og byrjuðu að syngja. --
Það liggur svo makalaust ljómandi á mér... og allur hópurinn tók undir svo
þetta var eins og fínasti kirkjukór.
Hvít húfa, sem hafði gleymst uppi á hillu, andvarpaði mæðulega. -- Æ, það
er bágt að vera svona einmana.
Litlar tátillur, úr ekta íslenskri ullarvoð, kúrðu í gluggakistunni en risu upp
þegar þær heyrðu í húfunni. -- Við skulum hvíslast á leyndarmálum, elskan,
skórnir skilja ekkert ef við tölum saman á fjármáli. -- Já, það er heillaráð,
ansaði húfan og hreiðraði um sig á hillunni.
Tunglið var farið að kíkja inn í kaffistofuna, það er að segja bara brot af því
og karlinn í tunglinu dró þetta eina auga í pung sem sjáanlegt var en festi það
loks á hálfri djúsflösku sem stóð á borðinu. Hún sneri sér í hring svo innihaldið
freyddi innan í flöskunni. -- Hér eru bara allir á hvolfi, hvíslaði hún og virti
fyrir sér stólana sem hvíldu á borðbrúninni með alla fætur upp í loft. -- Já, best
fer líklega að láta þessu lokið í nótt en hvort þetta verður ekki endurtekið er
önnur saga. Eða hvað segir þú, gamla mín? Hún sneri sér að rauðri
skúringarfötu sem stóð undir vaskinum.
-- Ó, ekki þarf ég þess, sagði sú aldraða og breiddi yfir sig gólfklútinn en nú
fer ég að sofa.
Úti tindruðu stjörnurnar og lýstu háa himinvegi og jörðin var ennþá jafn
skínandi hvít.
Samið á saumastofunni Víolu á Skagaströnd á árunum 1960-´70.
❄❄❄