Húnavaka - 01.05.2011, Page 123
H Ú N A V A K A 121
lýðháskólanum á Askov í Danmörku og kynnst þar lýðháskólahreyfingunni.
Klemens get ur þess ekki hvert Árni fór en þeir Árni og Jón stofnuðu
unglingaskóla í Vík sem sniðinn var að miklu leyti eftir lýðháskólum
Danmerkur. Þessi skóli starfaði aðeins í tvo vetur, þrjá mánuði hvorn vetur.
Klemens var þar bæði tímabilin. Veran í Vík og kennslan þar vakti upp þrá
Klemensar til að komast á lýðháskóla á Norður löndum.
Haustið 1910 settist hann í þriðja bekk Flensborgarskólans og lauk
gagnfræðaprófi vorið 1911. Hann náði hæstu einkunn í sögu, landafræði og
náttúrufræði en segir að einkunnir nar í ensku, dönsku og reikningi hafi ekki
verið eins háar enda hafi lítið verið kennt í þessum tungumálum í Vík en mikill
reikningsmaður segist Klemens aldrei hafa verið.
Klemens segist alltaf hafa þráð að komast á lýðháskóla á Norðurlöndum og
haustið 1912 lagði hann upp með skipi frá Akureyri áleiðis til lýðháskólans á
Voss í Noregi. Honum líkaði vel í skólanum. Skólastjóri á Voss var Lars
Eskeland, sem Klemens segir að hafi verið einn af mestu mælskumönnum
Noregs í þá daga og skrifaði Klemens hjá sér það sem hann gat úr fyrirlestrum
hans. Um sumarið vann Klemens sveitastörf og einnig í verksmiðju við
grjótmulningsvél.
Um veturnætur fór hann með háfjallalestinni til Ósló og þaðan til Dan-
merkur áleiðis til lýðháskólans á Askov í Danmörku. Þar líkaði honum vel.
Sumarið eftir vann Klemens landbúnaðarstörf í Danmörku. Skammt frá
bænum, þar sem hann var í kaupavinnu, var baðstöð við sjóinn. Þangað fór
hann oft á kvöldin og synti í sjónum. Hann segist ætíð hafa stundað
Möllersæfingar ytra og í mörg ár eftir að hann kom heim til Íslands. Hann var
aftur á Askov veturinn eftir eða til vors 1915. Þegar skóla lauk ferðaðist hann
um Danmörku og heimsótti lýðháskóla því að draumur hans var að verða
lýðháskólakennari. Í sláttarbyrjun 1915 hélt hann heim á leið.
Klemens fór með skipi til Akureyrar og varð samferða póstinum vestur í
Bólstaðarhlíð. Hann kom að kvöldlagi og foreldrar hans fögnuðu honum eins
og þau væru að heimta hann úr helju. Þau voru orðin gömul og þreytt, að hans
sögn. Hann var eina barn þeirra á lífi. Því var ekki nema um tvennt að velja
fyrir hann: að verða bóndi í Bólstaðarhlíð eða flytja burt. Þá hefði Bólstaðarhlíð
farið úr ættinni en það vildi hann ekki. Klemens ákvað því að verða bóndi „á
einni fegurstu jörð þessa lands“ eins og hann segir í handriti æviminninga
sinna. Þó hafi hann aldrei verið hneigður til búskapar.
Nú reið á að fá sér konu. Klemens vissi hver það átti að vera því að hann
átti kærustu í Skagafirði. Þau kynntust þegar hann var í Vík og hún vann eftir
það í Bólstaðarhlíð um tíma. Þau voru leynilega trúlofuð meðan hann var
erlendis en nú varð ekki lengur beðið með opinberun. Klemens segir að faðir
sinn hafi spurt hvort konuefnið væri „forstöndug“, hafi vitað sem var að þess
þurfti helst með.
Elísabet Magnúsdóttir var mjög glæsileg stúlka. Klemens segir að
Skagfirðingar hafi sagt að hann hafi tekið fallegustu stúlkuna í Skagafirði. En
í æviminningunum, sem Klemens ritar á efri árum, bætir hann því við að hún
hafi verið meira en falleg, hún hafi verið mikilhæf kona og mikill búforkur.