Húnavaka - 01.05.2011, Page 126
H Ú N A V A K A 124
Árið 1963 var hafist handa við að byggja prestseturshús að Botnastöðum en
prestar sveitarinnar höfðu um árabil setið á Æsustöðum sem er fremsti bær í
Langadal. Klemens gaf Hlíðarkirkju lóðina undir húsið og land í kring, tæpan
hektara.
Elísabet lést snögglega 3. apríl 1964. Segir Klemens að fráfall hennar hafi
komið sem reiðarslag. Margir í sveitinni hafi ekki trúað því að þessi hrausta og
glæsilega kona væri dáin. Hún hafi farið til Reykjavíkur á sólríkum sunnudegi
og ekki verið feigðarleg en komið aftur í kistu sem liðið lík á 73. aldursári.
Klemens skrifar fögur orð um hana í endurminningum sínum. „Tómlegt
finnst mér nú í Bólstaðarhlíð. En hún sigraði. Hún hafði unnið sig upp í huga
sveitunga sinna. Þessi fátæka stúlka. Hún varð mikil kona, er fegraði
Bólstaðarhlíð.“2
Áður en Klemens fór utan í fyrsta skipti á fund kvekara hafði hann lengi
verið meðhjálpari og hringjari í Hlíðarkirkju. Eftir að hann kom heim varð að
samkomulagi við prestinn að hann hætti að lesa kirkjubænina en héldi áfram
að hringja kirkjuklukkunum. Elísabet læsi bænina og skrýddi prestinn.
Klemens þótti hringja kirkjuklukkunum af einstöku listfengi. Hann geymdi
líka með sjálfum sér það sem biskupinn hafði sagt við hann að það mætti láta
kirkjuklukkurnar lofa Drottinn.
Við messur sat Klemens ævinlega á fremsta bekk uppi á kirkjuloftinu –
oftast, ef ekki alltaf, einn, horfði yfir söfnuðinn og prestinn fyrir altarinu og í
stólnum. Hann sat þögull með derhúfuna sína á milli handanna. Á fremsta
bekk til hægri niðri í kirkjunni sat Elísabet með skotthúfu yfir liðuðu, dökku
hári. Þegar hún gekk inn í kirkjuna, tignarleg eins og drottning og bar möttul
bryddaðan hermelínskinni, duldist engum glæsileiki hennar. Möttulinn má nú
sjá á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.
Saga Klemensar minnir á annan Hlíðarbónda sem leitaði sannleikans og
endurheimti Paradís. Steinari bónda í Hlíð undir Steinahlíðum fannst, þegar
upp var staðið, mest um vert að reisa vallargarðinn að nýju. Faðir Klemensar
var snillingur í steinhleðslu eins og Steinar. Klemens hlóð ekki vallargarða en
hringdi klukkunum í kirkjunni sinni af listfengi, þótt hann þráði þögnina.
Hann lést 8. júní, 1986 á Héraðshælinu á Blönduósi.
Trúarlíf og lífsskoðanir
Klemens Guðmundsson var þekktur um land allt á fyrri hluta liðinnar aldar
vegna fyrirlestra sinna um kvekaratrú. Ævi hans var á margan hátt sérstök en
hér verður sagt frá merkilegu trúarlífi sem litla eða enga athygli hefur vakið og
hvergi er á minnst þegar fjallað er um trúariðkanir á Íslandi enda var ekki um
að ræða söfnuð eða skipulega starfsemi. Eiginlega var þetta eins manns
söfnuður, svo undarlega sem það hljómar. Kannski eru þverstæður nákvæmari
lýsing á raunveruleika en ströng rökfræði.
Klemens hafði áhuga á trúmálum frá ungum aldri og jafnframt hreifst hann
af lýðháskólahreyfingunni á Norðurlöndum og vildi gjarnan halda uppi merki