Húnavaka - 01.05.2011, Qupperneq 127
H Ú N A V A K A 125
hennar með fræðslu og fyrirlestrum um þau efni, sem hann taldi mikils um vert
að fjallað væri um. En andleg mál voru honum ætíð efst í huga að því er verður
lesið úr ritum hans og minnisbókum. Eftir að hann kynntist trúarlífi og
trúarskoðunum kvekara varði hann miklum tíma í að kynna þessa hreyfingu
fyrir löndum sínum, þótt ekki verði sagt að uppskeran hafi verið mikil, nema
fyrir hann sjálfan. Þar virðist hann hafa fundið lífsfyllingu og hamingju sem
bætti upp vonbrigði á öðrum sviðum. Fimmtugur að aldri skrifar hann:
... „Í dag sit eg í þögninni og hlusta. Og eg heyri endurhljóma æsku minnar
hið innra í sálunni. Eg á margar minningar í hjarta mínu. Guð hefur gefið mér
æfintýraríkt líf. Það byrjaði á æskuárum mínum. En það var trúin á hið Innra
ljós er leiddi mig inn í hið mikla ævintýri lífsins.“3
Þetta ævintýri lífsins voru kynni hans af kvekurum, hinni fámennu en
stórmerkilegu trúarhreyfingu sem hófst um miðja sautjándu öld á Englandi.
Upphafsmaður hreyfingarinnar er jafnan talinn George Fox (1624 – 1691).
Hann var af bændafólki kominn og hlaut enga skólamenntun. Þegar hann sat
yfir fé úti í haganum las hann biblíuna og íhugaði rök tilverunnar. Hann taldi
ensku kirkjuna á rangri leið enda ríkti þar hræsni og yfirdrepsskapur þó að nóg
væri um sálmasöng og hjartnæmar prédikanir. Eftir miklar sálarkvalir sá hann
loks vonarglætu:
„Hann sá í andanum, að almáttugur Guð býr ekki í húsum, sem af höndum
eru gjörð, því bústaður hans og kirkja er mannleg sál. Frá því var kirkjan
ekkert annað en turnhús í augum hans.“4
... „Hann hafði fundið persónulegt samband við Guð, eða það sem kallast
frumþekking á Guði. Það er sú þekking, sem er algjörlega grundvölluð á eigin
reynslu og sannfæringu en ekki á neinum ytri heimildum Biblíu eða kirkju.“ 5
Frásagnir Klemensar af starfi frumherjanna, George Fox og fyrstu
fylgismanna hans, segja í raun og veru það sem segja þarf um kvekara. Hann
hefur greinilega kynnt sér ítarlega bæði kenningar þeirra og sögu hreyfingarinnar
og vitnar oft til dæma úr þeirri sögu. Það er óhugnanleg saga ofsókna og
pyntinga en líka saga um þrek og þolgæði þeirra manna og kvenna sem áttu
örugga trú á kærleika Guðs. Ýmsir kvekarar voru dæmdir í langa fangavist
vegna trúar sinnar, útskúfaðir og misskildir. En trú þeirra var svo örugg að þeir
héldu fast í hana þótt þeir yrðu að þola hinar hræðilegustu pyntingar. Um
þessar mundir voru margir hópar fólks, hinir svokölluðu Leitendur, sem vildu
endurvekja frumkristnina en Fox sagði að hreyfing hans væri ekki sýnilegur
kristindómur heldur byggðist hún á persónulegri trúarreynslu og opinberunum
frá Guði sjálfum.
George Fox var mikill ákafamaður og heitið kvekarar, Quakers á ensku, er
stundum sagt dregið af því að hann skalf oft og titraði þegar hann flutti
þrumandi ræður sínar eða þá að áheyrendur fóru að titra og skjálfa þegar
hann talaði til þeirra og jafnvel að vitnað sé til Gamla testamentisins þar sem
segir að þjóðirnar muni skjálfa (Jesaja, 66,2, Esra 9,4). En sjálfir kalla þeir sig
gjarnan Vinina, The Society of Friends og líka oft aðeins Quakers.
Einn hinn fremsti fulltrúi hreyfingarinnar var William Penn (1644 – 1718)
sem stofnaði ríkið Pennsylvaníu í Norður-Ameríku þar sem kvekarar áttu