Húnavaka - 01.05.2011, Page 131
H Ú N A V A K A 129
skeð, að eg sæi hann aldrei aftur. En til vonarlandsins varð eg að fara, því
guðdómleg rödd í brjósti mér hafði svo oft sagt: „Far þú og flyt boðskapinn, og
eg mun vera með þér og þú munt fá þrá þinni svalað.“ England var
vonarlandið, það var mitt vonarland fyrir 9 árum, er eg fór þangað í andlegri
leit og það var það einnig nú.“ 9
Klemens sigldi með Goðafossi til Hull. Þar fór hann á samkomu kvekara og
flutti fyrstu ræðu sína í hópi trúsystkina sinna og skýrði frá því hvers vegna
hann hreifst af trúarboðskap kvekara. Hann segist hafa flutt hundrað ræður
og erindi á Englandi á samkomum trúbræðra sinna. En Klemens kom víðar
fram en hjá trúfélögunum. Hann skrifar:
... „Í London er sjónvarp, er var opnað í síðastliðnum nóvembermánuði.
Kvekarar komu því til leiðar, að eg var sýndur í þessu sjónvarpi og talaði eg
þar 2var um sveitalíf á Íslandi. Eg var fyrsti kvekarinn, sem talaði í sjónvarp
og fyrsti Íslenski bóndinn er þar var sýndur.“10
En Klemens gerði fleira en sækja samkomur. Hann var um skeið á skóla
kvekara í Birmingham. Og leiðin heim árið 1937 lá um Danmörku og Noreg.
Ekki er minnst á fleiri utanfarir í ritum Klemensar.
Hið innra ljós
Klemens var vanur að flytja erindi og hafði mikla þörf fyrir að fræða aðra ekki
síður en sjálfan sig. Trúarbrögð voru honum hugstæð og hann skrifaði um
búddisma, andatrú (spíritisma), andlegar lækningar og endurholdgun. Í
London kynntist hann Christian Science-hreyfingunni og þykir margt fróðlegt
sem Mary Eddy Baker (1821 – 1910) hafði að segja um eðli sjúkdóma.11
Um íslensku þjóðkirkjuna hefur hann ýmislegt að segja og þótt hann
gagnrýni margt metur hann marga þjóna hennar mikils og á góða vini í hópi
presta. Og sem kirkjubóndi annaðist hann vel um kirkjuhúsið. Eins og áður
segir var hann hringjari í kirkjunni um langa hríð, hlustaði þá grannt á ræður
klerkanna en hreifst ekki af söng eða hljóðfæraslætti.
Hann segist hafa farið í kirkju á afmælisdeginum sínum þegar hann var 23
ára og er þá í Danmörku. Hann fór til altaris og þegar hann kom úr kirkjunni
fór hann einn að ganga í veðurblíðunni.
... „En þá fann eg undraverða sælu koma yfir mig. Mér fannst nýtt líf
virkilega vera að renna upp í hjarta mínu. Mér fannst himnaríki vera komið á
jörðu. Og eg fékk hugboð um það, að sakramentin væru víðar en í kirkjunni.
Eg fann þau líka í sólblíðu vorsins sem var að koma.“ 12
Eftir að heim kom hélt hann áfram að hugsa um það sem hann hafði heyrt
um kvekara og varð sér úti um bók um sögu þeirra og skoðanir.
... „Oft heyrði eg rödd er sagði: „Far þú til Englands á fund kvekara“.
Þannig liðu nokkur ár. En loks gat eg komist til þeirra. Og í þögninni með
þeim horfði eg inn í ljósheima lífsins. Ljós Krists birtist í nýjum ljóma í sálu
minni. Eg sá að það var mitt Innra ljós. Eg sá hið sanna sakramenti í þögninni.
Eg þurfti ekkert annað.“ 13