Húnavaka - 01.05.2011, Page 134
H Ú N A V A K A 132
lækna sjúkdóma áhuga Klemensar. Hann kynnti sér kenningar Kristilegra
vísinda eins og hann kallar Christian Science þegar hann var í London 1937.
En honum féll ekki að áhangendur Kristilegra vísinda skyldu styðja hernað og
varnarstríð, eins og þeir kölluðu það. Og hann virðist einnig hafa nokkrar
efasemdir um trúfélagið. Hann segir í lok frásagnar af kynnum sínum við
fulltrúa Kristilegra vísinda í London: „Þeir sem trúa á þessi vísindi og skilja
þau, þeir eru lausir við alla sjúkdóma. Þeir hafa eignast ódauðlega sælu. Þeir
eru guðir hér á jörðu.“ 20
Um endurholdgun og andatrú
Erindi Klemensar um endurholdgunarkenninguna eru alllöng. Hann gerir þar
grein fyrir helstu atriðum kenninga um endurholdgun og ræðir fjórar
kenningar um sálina.
Það er augljóst að Klemens telur endurholdgunarkenninguna skynsamlega
og leysa ýmis vandamál í sambandi við margt það sem miður fer í samskiptum
manna og lífi einstaklinganna. Kvekarar leggja mikla áherslu á siðgæði og
lögmál um orsök og afleiðingu fellur því vel að boðskap þeirra um rétt og rangt
og áhrif atferlis einstaklinganna á hvernig þeim vegnar í bráð og lengd.
Á fyrri hluta tuttugustu aldar var mikill áhugi meðal Íslendinga á andatrú
eða spíritisma eins og það var gjarnan kallað. Andatrúin var af mörgum talin
til vísinda, þar eð með tilraunum væri hægt að sanna fyrirbæri, sem bentu til
þess að mögulegt væri að hafa samband við framliðna. Það fór ekki hjá því að
Klemens tæki andatrúna til athugunar. Í erindi sem hann flutti í sveit sinni árið
1923 fjallar hann ítarlega um Andatrú nútímans.
Hann ræðir helstu kenningar andatrúarmanna og þá einkum fullyrðingar
um að miðlar geti komist í samband við framliðna og flutt boð milli tveggja
heima. Hann kveðst sannfærður um að framliðnir geti birst en hafnar því að
miðla þurfi til. Einnig tekur hann vara við að telja Nýja testamentið
andatrúarbók enda sé þar ekki minnst á miðla í sambandi við það að framliðnir
birtist. Fyrirbæri á miðilsfundum telur hann annars vegar blekkingar, hins
vegar birtingu á því sem gerist í undirvitund viðstaddra. Klemens segir
andatrúarmenn í raun ekki taka boðskap Krists um eilíft líf nógu alvarlega.
Það sé sér hins vegar nóg að heyra loforð hans um að þeir, sem á sig trúi, muni
hljóta eilíft líf.
Klemensi finnst allar þessar tilraunir með borð sem hreyfast, andaglas og
ósjálfráða skrift vera fremur ómerkileg fyrirbæri og alls konar birtingarform
anda, eins og útfrymi og alls kyns skruðningar og hlutir sem fara í gegnum
heilt, vera ógeðugt og fráhrindandi. Sjálfur kveðst hann ekki efast um
framhaldslíf og að þeir sem dánir eru geti gert vart við sig en hins vegar telur
hann enga þörf fyrir miðla eða einhvers konar dásvefn til að komast í samband
við heim hinna dauðu. Hann segist ekki hafa neina löngun til þess að leita
frétta af látnum vinum sínum gegnum dáleidda miðla. „Mér er nóg að geyma
minningu þeirra í hjartanu þangað til eg fæ að heilsa þeim á landi eilífðarinnar.“
21