Húnavaka - 01.05.2011, Page 140
H Ú N A V A K A 138
GUÐMUNDUR JÓSAFATSSON, Brandsstöðum:
Húnvetnskir húsgangar
Lausavísnapistill úr fórum Guðmundar Jósafatssonar frá
Brandsstöðum, fluttur í útvarp 23. mars 1956
Heil, þið sem hlustið.
Erfðir hafa löngum þótt eftirsóknarverðar og það jafnvel svo að talið hefur ver-
ið til vegsauka, að vera til þeirra borinn. Hitt er annað mál að til beggja skauta
hefur brugðið um það hvort þeir sem til þeirra eru bornir valdi þeim svo að til
fullrar sæmdar sé. Til er það jafnvel að þær hafi virst verða fjötur um fót enda
er mælt að „sjaldan sé haldsamt á auðfengnum arfi“. Vera má að slíkir
talshættir skapist ekki að öllu af öfundarleysi. Hitt er víst að til þess að valda
auð fengnum erfðum þarf meira manngildi en margan grunar – meira en svo
að það gefist almenningi – enda þarf fleira til. Til þess að valda viðfangsefnum
kynslóðanna þarf ræktun – þjálfun – og er löngum ósýnt að óreyndu hversu
hverri kynslóð tekst að búa þá næstu undir þau viðfangsefni sem henni eru
fengin.
Ein af erfðum okkar Íslendinga er tækifærisstakan. Hún er flutt austan um
haf með þeim sem hingað komu í landaleit og þá sem forn erfð og þaulræktuð.
Að vísu er mynd hennar sem við þekkjum enn í dag, hin hljómmikla
dróttkveðna staka, sem þeir Egill, Þormóður og Kormákur kváðu við hin
ólíkustu tækifæri og aðstæður, mjög ólíkar ferskeytlunni eins og hún birtist
okkur í dag í öllum sínum einfaldleik. Og þó mun skammt á milli. Sé dýpra
skyggnst er ekki ólíklegt að vísi að íslensku ferskeytlunni sé einmitt að finna hjá
landnámsmanninum [Hallsteini Þengilssyni mjögsiglanda] sem raular á leið
inn Eyjafjörð:
Drúpir Höfði,
dauður er Þengill,
hlæja hlíðir,
við Hallsteini.
Eða þingeyska landnámsmanninum [Þori snepli] sem kvaddi héraðið
[Köldukinn] með þessum hendingum [er hann flutti inn að Lundi í
Fnjóskadal]:
Hér liggur kjóla keyrir,
Kaldakinn of aldir,
En við förum heilir,
Hjálmun-Gautur, á braut.