Húnavaka - 01.05.2011, Page 151
H Ú N A V A K A 149
Í þann tíð var auðvitað ekkert sjónvarp, ekkert vídeó, tölvur eða annað sem
hindrar öll samskipti fólks á milli nú á dögum. Þessi sagnahefð munnmælanna
hefir síðan skilað sér áfram og eftir að ég náði fullorðins aldri hafa margar
þeirra ratað til mín, sumar hverjar afar athygliverðar og mótteknar með
þökkum. Ekkert jafnast á við gamlar og góðar minningar.
Eftir að ég fór fyrst að ganga, hófust misviturlegar og stórhættulegar
skoðunarferðir mínar, fyrst við húsið þar sem við bjuggum og síðar í aðeins
lengri ferðir og ævintýri sem ég held að mamma viti (sem betur fer) jafnvel ekki
af enn þann dag í dag. Ég man að mér fannst Blönduós vera nafli alheimsins
og allt var svo stórt og mikið í augum lítils drengs að stíga sín fyrstu skref út í
lífsins ólgusjó. Húnavatnssýsla eystri var svo auðvitað allur heimurinn. Annarra
manna sýslur svo sem vestursýslan og Skagafjarðarsýsla voru strax tortryggileg
og vafasöm fyrirbæri sem bæri að forðast.
Píslin lét lítið fyrir sér fara og jafnvel faldi sig þegar farið var um þessar
vafasömu slóðir.
Ég vissi sem betur fer ekkert um peninga, víxla, vexti, brennivín eða annað
sem virðist kvelja nánast hvert einasta mannsbarn ævina á enda. Ég var svo
sakleysislega upptekinn af því að fylla litlu lungun af hreinu húnvetnsku lofti
og borða hafragraut og húnvetnskt skyr, lýsi og berjasaft.
Að verða stór og sterkur var lykilatriði svo hægt væri að standa andspænis
hrekkjusvínum og jafnvel bjóða draugum byrginn. Leikföng voru ekki mörg en
þeim mun þakklátari eign. Ég man alltaf eftir leggjum og skeljum, það er
óborganlegt að hafa fengið að kynnast þeim leikföngum og læra að leika sér
með þau. Svo var það rauður trévörubíll sem pabbi smíðaði. Á honum gat ég
setið á pallinum og ýtt mér áfram með fótunum og svo man ég auðvitað eftir
matchbox bílunum sem ég geymdi í forláta dós undan makkintoss sælgæti. Ég
man líka eftir því þegar mamma og pabbi voru að leika í Samkomuhúsinu á
Blönduósi en hef aldrei almennilega skilið af hverju pabbi þurfti að nota
bílana mína til að leika sér með í leikritinu. Þvílík hneisa og algjörlega
ófyrirgefanlegt.
Ég var svo óendanlega heppinn að afi og amma voru alltaf nálægt. Amma
Lára (Lára Sigríður Guðmundsdóttir) var alltaf að klæða mig úr og í ný föt og
svo þegar ég kom til mömmu endurtóku þessi fataskipti sig. Ég úr matrósa-
gallanum frá ömmu og í einhverja leppa sem mömmu þóttu betur hæfa
forvitinni písl sem gerði engan greinarmun á baðbalanum og brúnleitum
drullupollum úti við. Í þá daga gekk allt út á að kynnast sem best móður jörð
beint og milliliðalaust; drullupollum, mold og skríða og velta sér upp úr
skítnum. Það var alltaf flott í augum hinna barnanna ef maður þorði að verða
ærlega skítugur. Auðvitað kom einstaka smáslys fyrir og þá fann maður bara
einhverja frænku ef mamma eða amma voru ekki tiltækar til að kyssa á
meiddið.
Í dagslok eftir puð og púl fór maður heim, mamma missti auðvitað vitið og
ég fékk hellu fyrir bæði eyrun, var settur í bað í bala. Síðar lærðist mér að
drullugum upp fyrir haus var auðvitað best að koma fyrst við hjá ömmu Láru.
Hún skildi mig svo vel og átti alltaf kakó og einstaka nammimola. Mamma tók