Húnavaka - 01.05.2011, Page 153
H Ú N A V A K A 151
SVEINN TORFI ÞÓRÓLFSSON frá Skagaströnd:
Þeir fiska örugglega vel og koma
ríkir til baka
Aðalbjörg HU 7
Útgerðarfélag Höfðakaupsstaðar keypti Aðalbjörgu HU 7 árið 1953 í staðinn
fyrir togarann Höfðaborg sem seinna fór í brotajárn. Aðalbjörgin var 41 tonna
eikarbátur, byggð í Englandi 1881 en stækkuð 1924. Mér fannst Aðalbjörgin
stór og tignarlegur bátur sem fór vel við kranabryggjuna framan við litlu
Bjargirnar, Ásbjörgu og Auðbjörgu.
Stefán Pálsson frá Kálfshamarsvík var skipstjóri, Páll Jóhannesson, ættaður
frá Garði, var stýrimaður en Þórólfur Sveinsson, faðir minn, var vélstjóri. Svo
var einn háseti, mig minnir, að það hafi verið Vilhjálmur Benediktsson frá
Brandaskarði. Enginn kokkur var um borð svo áhöfnin hafði með sér bitakassa
með mat sínum í. Þeir hituðu sér kaffi en borðuðu annars bitann kaldan.
Stebbi, pabbi og einhverjir aðrir á Skagaströnd sóttu Aðalbjörgina til
Stykkishólms. Ég man að pabbi kom heim eitt kvöldið og sagði að þetta gæti
aldrei gengið vel, því vélin, sem var af Buddha gerð, væri alveg niðurslitin og
þyrfti að fara í mikla klössun. Hún hefði bilað margoft á leiðinni frá
Stykkishólmi og þeir hefðu bara komist með herkjum til Skagastrandar.
En það voru engir peningar til að gera við eða kaupa stykki þannig að pabbi
og Bjössi frá Mánaskál (Björn Sigurðsson) voru mikið í að redda hlutunum svo
að Aðalbjörgin kæmist á sjó.
Pabbi þrasaði mikið í Þorfinni Bjarnasyni útgerðarstjóra um að kaupa
varahluti en Þorfinnur sagði: „Það eru engir peningar til, svo þið verðið að
gera við þetta sjálfir.“ Pabba þótti þetta leiðinlegt starf. „Ég veit ekki hvað við
gerðum ef við hefðum ekki Bjössa frá Mánaskál, sem reddar öllu í vélum“
sagði hann margoft. Mig minnir, að það hafi verið regúlatórinn á olíunni sem
olli mestum vandræðum. Einu sinni sagði pabbi að Bjössi hefði smíðað stykki
úr einhverjum sérstökum málmi til að gera við regúlatórinn. Það þótti
meistaralega gert.
Þeir fóru á línu en afli var tregur. Venjulega var farið út um klukkan fjögur
til fimm á morgnana og línan lögð upp úr klukkan níu. Svo var legið yfir í tvo
til fjóra klukkutíma áður en byrjað var að draga línuna. Komið var í land upp
úr klukkan fjögur. Landmennirnir, sem voru fimm, gerðu að aflanum á
bryggjunni áður en hann var sendur í frystihúsin.