Húnavaka - 01.05.2011, Page 156
H Ú N A V A K A 154
Þegar við komum heim var strax kveikt á útvarpinu og inn hljómuðu fregnir
af síld. Síldin var komin á Grímseyjarsundið og bátar að fá þar síld. „Þeir
verða komnir þangað í fyrramálið og ættu þá að vera í bullandi síld“ sagði
mamma spekingslega. Við fórum nú að sofa og mig dreymdi fagra drauma um
síld, síld hér og síld þar og síld á Skagaströnd.
Strax næsta morgun opnaði ég spenntur fyrir útvarpið og hlustaði á
morgunfréttir, þar sem sagt var að nokkrir bátar hefðu fengið síld á
Grímseyjarsundi og á Eyjafirði og væru að landa á Siglufirði, Ólafsfirði,
Krossanesi og á Akureyri. En ekki var minnst á Aðalbjörgina.
Mamma sagði að það væri of snemmt. Þeir væru rétt komnir á miðin og að
það væru ekki margir bátar að fá síld og þá helst smá slatta. „Hvað er smá
slatti?“ spurði ég. „Tja, tíu til fimmtíu tunnur, sagði mamma og þá fer það
oftast í salt en slatti getur verið upp í hundrað tunnur. Annars er ekkert fjör í
þessu nema bátar komi drekkhlaðnir“ sagði hún og ég sá fyrir mér Aðalbjörgina
drekkhlaðna af síld.
Svo liðu nokkrir dagar og ekkert heyrðist frá eða fréttist um Aðalbjörgina.
Mér fannst það dapurlegt og stórmerkilegt að hún var ekki nefnd í fréttunum
en mamma sagði að síldveiðarnar væru ekki komnar almennilega í gang
ennþá svo við yrðum að bíða svolítið.
Svo komu boð frá símstöðinni á Lundi að pabbi sé í símanum. Mamma
þaut af stað í miklu ofboði og skildir mig eftir með krakkana. Ég lét það ekki
stoppa mig en tróð Má bróður í kerruna og tók Almar og Árna með mér og
æddi líka niður á símstöð. Þegar ég kom niður á símstöð var mamma að tala
við pabba og talaði hátt svo að ég heyrði vel út á gang úr símaklefanum.
Auðheyrt var að um engar gleðifréttir var að ræða.
Mamma kom nú út úr símaklefanum og sagði að þeir væru á Akureyri með
bilaða vél. Þeir hafi varla verið komnir á miðin þegar vélin fór að hiksta og
gefa sig. Þeir hefðu komist til Akureyrar fyrir eigin vélarafli því Þorfinnur hefði
beðið þá um að komast í land hjálparlaust. Pabbi sagðist vera búinn að vaka á
annan sólarhring við að halda vélinni gangandi og væri nú alveg að gefast upp
á þessari vélardruslu.
Næst heyrðum við að Aðalbjörgin væri á Raufarhöfn með slatta í bræðslu.
Við fylgdumst vel með síldarfréttunum í útvarpinu og lásum allt um
síldveiðarnar í Morgunblaðinu en aldrei kom eitt orð um Aðalbjörgina. Það
voru oftast sömu bátarnir sem fengu síld, td Súlan EA, Snæfuglinn o.fl. Ég
braut talsvert heilann um hvernig stæði á því en komst ekki að neinni
niðurstöðu. Ég spurði ýmsa um það en fékk heldur engin góð svör.
Einn daginn fór mamma til Þorfinns að taka út, eins og hún kallaði það að
ná í peninga. Þorfinnur sagði að þeir væru búnir að fiska fyrir kostnaði en ekki
meira, svo varla yrði hlutur. Mamma var nokkuð döpur yfir þessum fréttum
en herti svo upp hugann og sagði að síldin hlyti að koma.
Svo var það dag nokkurn að þeir á Aðalbjörginni komu siglandi inn á
höfnina á Skagaströnd. Síldarvertíð var lokið. Við þutum öll, ungir sem gamlir,
niður á bryggju til að taka á móti áhöfninni og heyra hvernig hefði gengið. Það
lyktaði síld af Aðalbjörginni og mér fannst það góð lykt.