Húnavaka - 01.05.2011, Side 162
H Ú N A V A K A 160
Árið 1976 flutti fjölskyldan til Hólmavíkur og rak þar gistiheimili í tvö ár en
flutti þá aftur til Blönduóss. Seinna fór Þórir að vinna hjá brauðgerðinni Krútt
við útkeyrslu á brauðum. Upp úr því varð hann sjálfstæður sendibílstjóri til
vorsins 1999 en þá gerðist hann rútubílstjóri í tvö sumur og vann á verkstæði
veturinn á milli. Þar á eftir fór hann að vinna hjá Léttitækni á Blönduósi og
var þar fram að 67 ára afmælinu.
Efri áranna ætlaði Þórir að njóta við föndur og tónlist. Hann var góður
tónlistarmaður, eignaðist orgel 11 ára og fyrstu harmonikuna um fermingu og
spilaði mikið á böllum á yngri árum með hinum ýmsu félögum. Hann var einn
af stofnendum Harmonikuunnenda Húnavatnssýslna og formaður þar í 18 ár
samfellt. Hann var líka einn af þeim sem tóku þátt í að kaupa verslunarhúsnæðið
Ósbæ undir starfsemi félagsins árið 2004 og vann þar mikið og gott starf.
Árið 2009 var honum og fjölskyldunni erfitt þar sem heilsa hans hafði
versnað mikið og kom þá í ljós að hans sjúkdómur væri MND sem er
ólæknandi. Þórir tók þessu ótrúlega vel og æðrulaust. Hann andaðist á
Landspítalanum við Fossvog.
Útför Þóris Heiðmars fór fram 20. febrúar frá Blönduósskirkju.
Ingibjörg Kristjánsdóttir.
Hannes Stephensen Pétursson,
Blönduósi
Fæddur 10. desember 1931 – Dáinn 17. mars 2010
Hannes var fæddur í Hafnardal í Nauteyrarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar
hans voru Sigríður Guðmundsdóttir, fædd í Tungu í Önundarfirði, Mosvallahreppi
Vestur-Ísafjarðarsýslu og Pétur Pálsson, fæddur á
Prestbakka, Bæjarhreppi Strandasýslu. Systkini
Hannesar eru Ragna, Páll, Björg Sigríður, Arndís,
Gróa Bjarnfríður, Gunnar Friðrik, Jón Páll,
Guðmundur Garðar, Þórður, Fríða, Gerður, Garðar,
yngst er Sigríður. Hannes var næst yngstur.
Hann ólst upp í Hafnardal til ársins 1946, þá
flutti hann með fjölskyldu sinni að Kirkjubóli í
Skutulsfirði en þar var faðir hans bústjóri. Þar
vann Hannes almenn sveitastörf.
En vélar og tæki, mótorhjól og bílar heilluðu
hann og voru aðaláhugamál hans. Hann fór
snemma að vinna hjá Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði
þar sem hann lærði vélsmíði.
Um 1950 flutti Hannes til Reykjavíkur og vann þar við iðn sína. Hann flutti
síðar á Blönduós þar sem hann starfaði hjá Vélsmiðju Húnvetninga í mörg ár.
Um 1980 flutti Hannes aftur til Reykjavíkur og hóf störf hjá Álverinu í
Straumsvík og þar vann hann allt til starfsloka vegna aldurs.