Húnavaka - 01.05.2011, Síða 164
H Ú N A V A K A 162
Jakobi Jóhannessyni, frá Garði á Skagaströnd. Hann er fæddur 15. júní 1920,
sonur Helgu Þorbergsdóttur og Jóhannesar Pálssonar.
Soffía og Guðmundur eignuðust 6 börn. Elstur er Lárus Ægir fæddur 1946.
Hann var í sambúð með Bjarneyju Valdimarsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Næst kom Helga Jóhanna, fædd 1948, hennar maður er Eðvarð Sigmar
Hallgrímsson, þau eiga tvær dætur. Þá er Guðmundur, fæddur 1949, hans
kona er Sigurlaug Magnúsdóttir og eiga þau þrjú börn. Árið 1953 fæddust
þeim tvíburarnir, Ingibergur og Karl. Kona Ingibergs er Signý Ósk Richter
og eiga þau tvö börn en áður átti Signý eina dóttur. Eiginkona Karls var
Sveinbjörg Hallgrímsdóttir og eiga þau tvö börn. Yngst er Lára fædd 1955,
hennar maður er Gunnar Svanlaugsson og þau eiga fjögur börn. Hjá Soffíu
og Guðmundi ólst upp frá 10 ára aldri Ólafur Róbert Ingibjörnsson, fæddur
1956, kona hans er Kristín Hrönn Árnadóttir og eignuðust þau fimm börn.
Húsmóðurstarfið var hennar ævistarf, erilsamt en um leið líflegt. Börnin
voru sjö á heimilinu og aðeins 10 ár á milli þess elsta og þess yngsta.
En það var ekki bara fjölskyldan sem naut krafta Soffíu því gestrisni og
gjafmildi einkenndi heimili þeirra Guðmundar alla tíð. Halla Jökulsdóttir frá
Núpi í Laxárdal og Sigurður Björnsson frá Löngumýri áttu einnig heimili og
skjól hjá þeim hjónum meðan á skólagöngu á Skagaströnd stóð og hafa þau
alla tíð haldið miklu vinfengi við fjölskylduna.
Auk þess að annast stórt heimili ráku þau hjónin einnig um tíma kleinugerð,
útleigu húsnæðis og fæðissölu. Þau ræktuðu lífrænt grænmeti til heimilisins og
voru á undan sinni samtíð í því, eins og mörgu öðru.
Soffía var alla tíð mjög ötul í félagsmálum og sinnti af miklum áhuga og elju
mörgum félags- og framfaramálum byggðarlagsins. Heimabyggð hennar og
íbúar þess áttu hug hennar og hjarta. Hún var formaður Kvenfélagsins
Einingar um árabil og síðar heiðursfélagi. Hún var í áratugi í forystu
Sjúkrasjóðs Höfðakaupsstaðar sem hefur gefið mikið af lækningatækjum til
heilsugæslunnar á Skagaströnd. Hún var víðsýn baráttukona sem barðist fyrir
samfélag sitt, hikaði ekki við að standa í bréfaskiptum og símtölum við
ráðamenn þjóðarinnar til að fá góðum málum þokað áfram og gaf þá hvergi
eftir í röksemdum og eftirfylgni við hvern sem í hlut átti, hvort sem baráttumálið
var að læknir hefði fasta búsetu á Skagaströnd eða að unglingarnir gætu sótt
menntun sína í heimabyggð sem lengst.
Hún gaf sér einnig tíma til að rækta samband sitt og vináttu við fólk enda
átti hún fjölda góðra og tryggra vina.
Hún var trúuð kona í mörgum skilningi þess orðs. Hún trúði á hið stóra
samhengi tilverunnar, hinn algóða Guð. Hún trúði einnig á framtíðina fyrir
afkomendur sína, vini og skjólstæðinga en einnig á framtíð þess byggðarlags
sem hún unni.
Soffía lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Hún var kvödd hinstu
kveðju í Hólaneskirkju á Skagaströnd 8. apríl 2010.
Sr. Ursula Árnadóttir.