Húnavaka - 01.05.2011, Page 165
H Ú N A V A K A 163
Sveinbjörn Helgi Blöndal
frá Skagaströnd
Fæddur 11. október 1932 – Dáinn 7. apríl 2010
Sveinbjörn fæddist á Akureyri, sonur Magnúsar Blöndals, framkvæmdastjóra
á Siglufirði, 1897-1945 og Elsu Maríu Schiöth, 1906-1966. Systir Sveinbjörns
var Margrét Sigríður, 1930-2002, sem var búsett í Bandaríkjunum. Eiginmaður
Margrétar var James Paul McAller.
Sveinbjörn ólst upp á Siglufirði en rétt innan við tvítugt hélt hann suður yfir
heiðar til náms og starfa. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla
Íslands og brautskráðist þaðan frá listmálunardeild. Hann lagði jafnframt
stund á frönskunám.
Sveinbjörn kvæntist, 18. júní 1955, Birnu Ingibjörgu Jónsdóttur, f. 1932.
Börn Sveinbjörns og Birnu eru Elsa Lára, f. 1955, Magnús Bjarni, 1959-
2001, Magnús átti eina dóttur. Barnsmóðir Magnúsar er Sólveig Eiðsdóttir.
Kristján Jón, f. 1963, Númi Orri, f. 1966, fyrrverandi eiginkona Orra er
Hrefna Snorradóttir og börn þeirra eru tvö. Núverandi sambýliskona Orra er
Arnbjörg Högnadóttir og eiga þau einn son.
Sveinbjörn og Birna fluttu til Skagastrandar um 1955 og bjuggu flest sín
búskaparár þar. Sveinbjörn stundaði oftast almenna verkamannavinnu, vann
við smíðar, húsamálun og flísalagnir. Með handlagni, dugnaði og smekkvísi
fórst honum það vel úr hendi sem hann tók fyrir.
Frístundirnar notaði hann til að mála og teikna
en hélt lengi vel verkum sínum lítt á lofti þótt þeir
sem þekktu hann best fengju að sjá og njóta
málverka og skopmynda. Fyrirmyndir í málverkin
voru oftast sóttar í íslenska náttúru þar sem
fagurkerinn beitti litatækni sinni til að kalla fram
tilbrigði náttúrunnar, birtuna og formin. Hann
var gagnrýninn á eigin verk og fannst þau seint
fullkomnuð og var kominn á miðjan aldur þegar
hann fékkst til að halda myndlistarsýningu. Þá
fékk hann strax góðar viðtökur og viðurkenningu,
verk hans seldust vel og prýða nú fjölda heimila
víða um land.
Sveinbjörn var rúmlega meðalmaður á hæð, svipmikill og fasmikill, hafði
mikið og strítt hár sem hann greidd jafnan aftur. Undir miklum augabrúnum
leiftruðu athugul augu sem námu af listrænni næmni það sem fyrir bar, hvort
heldur voru litbrigði himins eða fjölbreytileiki þess fólks sem hann umgekkst.
Hann hafði til að bera gott innsæi á liti form og samspil. En næmni
listamannsins er ekki alltaf auðveld gjöf því hún er líka opin leið að þeirri
kviku sem hann leyndi oft undir hrjúfu yfirborði. Hann var skarpgreindur,