Húnavaka - 01.05.2011, Page 168
H Ú N A V A K A 166
Árni Páll, f. 1948. Hallgrímur Karl, f. 1953, eiginkona hans er Guðrún Jóna
Björgvinsdóttir, þau eiga tíu börn. Hjalti Sævar, f. 1954, hann á tvö börn.
Svavar Jónatan, f. 1956, eiginkona hans er Björk Önnudóttir, þau eiga fimm
börn.
Hjalti og Anna Lilja bjuggu allan sinn búskap á Skeggjastöðum. Þau voru
mjög samhent hjón og samband þeirra einkenndist af einlægri elsku og
virðingu.
Lífsstarf Hjalta var starf bóndans en í áratugi var hann einnig póstur
sveitarinnar. Fyrst ríðandi á hesti, síðar á dráttavél og síðustu árin á bíl. Hann
þótti alla tíð mjög góður póstur og tók oft að sér snúninga fyrir sveitunga sína,
t.d. að fara með egg á milli bæja, alltaf heil og óbrotin. Hann færði gamla
fólkinu ellilaunin sín og tók stundum farþega á dráttarvélina eða í jeppann.
Félagslyndi hans og tryggð við samferðarmennina lýsti sér best í þeirri miklu
áherslu sem hann lagði á að friður og sátt ríkti á milli manna og hann gerði
allt sem í hans valdi stóð til að svo mætti vera.
Hjalti hafði mikinn áhuga á öllu því sem til framfara horfði. Á fyrstu
búskaparárum sínum átti hann jarðvinnslutæki sem beitt var fyrir hesta og þau
notaði hann til að rækta upp og bæta landgæði sín og einnig vann hann fyrir
aðra bændur í sveitinni.
Hjalti var dýravinur og voru hestarnir hans honum einkar kærir. Einstakt
blik komið í augu Hjalta þegar tal barst að hestunum. Hesturinn var
vinnufélagi hans sem hann mat mikils og þurfti oft að treysta á. Haft er eftir
honum að hann væri ekki einn á ferð þegar hann hefði hestana sína með í för.
Síðustu æviárin dvaldi Hjalti á Dvalarheimilinu Sæborg. Hann lést á
Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Útför hans fór fram frá Hofskirkju 10. júlí
og jarðsett var í heimagrafreit að Skeggjastöðum.
Sr. Ursula Árnadóttir.
Sigurður Óli Kristjánsson,
Blönduósi
Fæddur 2. nóvember 1973 – Dáinn 20. júlí 2010
Sigurður var fæddur á Hvammstanga. Foreldrar hans voru Kristján Ísfeld og
Hólmfríður Sigurðardóttir. Eldri systir hans er Kristín en Guðmundur Hjörtur
er yngri.
Snemma kom í ljós að Sigurður Óli yrði alltaf elskunnar barn. Líkaminn
náði ekki fullum styrk og eitthvað hamlaði málþroska. Sex ára gamall fór hann
til þjálfunar á Sólborg á Akureyri og þegar sambýli var reist á Blönduósi var
hann með fyrstu heimilismönnum þar árið 1994.
Sambýlið reyndist gott athvarf og heimili. Heimilisfólk þar var 5-6 manns
og Sigurður Óli var allra hugljúfi, þótt hann yrði oft að beita hugmyndaflugi
meir en aðrir til að geta tjáð sig. Alltaf var hann glaðlyndur í dagsins önn og