Húnavaka - 01.05.2011, Page 171
H Ú N A V A K A 169
Ástu Sighvatsdóttur og Karl Helgason sem lengi var póst- og símstöðvarstjóri
á Blönduósi. Helga fór til þeirra fjórtán ára gömul og gætti barna þeirra,
Sigrúnar og Sighvats, auk þess að vinna önnur störf eins og gengur. Ævilöng
vinátta myndaðist og sem merki um kærleikann sem Helga bar til heimilisins,
Ástu og Karls, þá kallaði hún Ástu gjarna fóstru sína. Síðar átti líf þeirra eftir
að tengjast enn sterkari böndum þegar Helga kynnist mannsefninu sínu sem
var bróðir Karls Helgasonar.
Helga gekk í Barnaskólann á Blönduósi og
stundaði síðar nám við unglingaskóla sr. Þorsteins
B. Gíslasonar í Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu.
Hún fór í Húsmæðraskólann að Laugum í
Þingeyjarsýslu eftir að hafa verið vinnukona þar í
sýslu um skeið hjá sr. Þorgrími og Áslaugu að
Grenjaðarstað. Á þessum tíma var það ekki
sjálfgefið að stúlkur kæmust til náms. Nám í
unglinga- og húsmæðraskólum var mjög
eftirsóknarvert og þótti í þá daga góð viðbót við
skyldunámið.
Eiginmaður Helgu var Helgi Breiðfjörð
Helgason lyfjaafgreiðslumaður og kaupmaður á
Blönduósi. Hann fæddist á Kverngrjóti í Saurbæ í Dalasýslu 18. október 1914
en lést 8. október 2005. Þau gengu í hjónaband 27. september 1947.
Í Helgafelli eða Aðalgötu 8, ráku þau hjónin apótek eða lyfjaafgreiðslu fyrir
héraðslækninn á Blönduósi í rúma þrjá áratugi eða frá árinu 1942 til 1974.
Eftir það ráku þau verslunina Gimli í sama húsnæði í nokkur ár.
Samband Helgu og Helga var mjög náið, vináttan mikil, gagnkvæm virðing
í sambúð þeirra og hjónabandi. Synir þeirra Helgu og Helga eru Karl, f.
1946. Kona hans er Sigurborg Bragadóttir og eiga þau þrjú börn. Yngri sonur
þeirra er Guðmundur Helgi, f. 1952. Börn hans eru tvö.
Helga var afar félagslynd kona og starfaði í nokkrum félögum á Blönduósi.
Má þar nefna Kvenfélagið Vöku og Leikfélag Blönduóss. Hún fór með mörg
hlutverk hjá leikfélaginu og var gerð að heiðursfélaga þess eftir langt og gott
starf.
Aðal starfsvettvangur Helgu var þó heimilið og húsmóðurstarfið. Því starfi
sinnti hún af mikilli alúð og fór gott orð af veitingum hennar, snyrtimennsku
og dugnaði. Síðar starfaði hún hjá Pólarprjóni og fleiri fyrirtækjum á
Blönduósi.
Helga var um margt sérstök kona. Hún fór ótroðnar slóðir og kom ávallt til
dyranna eins og hún var klædd eins og sagt er, var hreinskilin og gaf ekkert
eftir í skoðunum sínum. Hún var glæsileg kona og virðuleg, fríð og brosmild
og alltaf vel til höfð. Hún var greind og hæfileikarík, vel lesin og fróð um
marga hluti.
Helga lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Útför hennar var gerð frá
Blönduósskirkju þann 21. ágúst 2010.
Sr. Ursula Árnadóttir.