Húnavaka - 01.05.2011, Page 172
H Ú N A V A K A 170
Guðrún Ingibjörg Lárusdóttir
frá Skagaströnd
Fædd 12. júlí 1930 – Dáin 20. september 2010
Guðrún Ingibjörg Lárusdóttir fæddist á Vindhæli á Skagaströnd, dóttir
hjónanna Lárusar Guðmundar Guðmundssonar, 1896-1981 og Láru
Kristjánsdóttur, 1901-1993. Ingibjörg var yngst fjögurra systkina. Tvö eru
farin fyrr, þau Soffía Sigurlaug, 1925-2010 og Guðmundur, 1929-2002 en
Kristjana Sigurbjörg lifir systkini sín.
Ingibjörg ólst upp á Vindhæli til 5 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan niður
á Skagaströnd í húsið Herðubreið sem Lárus,
faðir hennar, hafði þá nýverið reist. Ingibjörg
gekk í barnaskóla á Skagaströnd og fór síðan á
Tóvinnuskólann á Svalbarði í Eyjafirði í einn
vetur og Kvennaskólann á Blönduósi annan vetur.
Sumarið 1950 gerðist Ingibjörg kaupakona austur
á Fljótsdalshéraði og um haustið hóf hún störf
sem starfsstúlka við barnaskólann á
Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Þar kynntist hún
Sigurði Magnússyni frá Hauksstöðum á Jökuldal,
síðar sambýlismanni sínum. Þau hófu sambúð
haustið 1951 þegar Inga flutti að Hauksstöðum.
Þeim varð fjögurra barna auðið: Guðmundur
Haukur f. 1951, kona hans er Ögn Magna
Magnúsdóttir og eiga þau tvær dætur, Sigurður f. 1953, sambýliskona hans er
Seeka Butprom, Svanfríður f. 1958 og á hún einn son og Þórdís f. 1960, hún
á þrjú börn.
Ingibjörg og Sigurður stunduðu búskap á Hauksstöðum en sumarið 1955
tóku þau á leigu nýbýlið Gilsá á Jökuldal. Á Gilsá stunduðu þau hefðbundinn
blandaðan búskap. Sigurður átti vörubíl og vann mikið utan búsins með bílinn
einkum við brúargerð. Ingibjörg varð því að vera bæði húsfreyja og húsbóndi
á heimilinu og bóndi yfir annasamasta tíma búskaparársins. Árið 1963 flutti
fjölskyldan að Sólvangi sem er smábýli rétt fyrir utan Skagastrandarþorpið.
Áfram var blandaður búskapur stundaður þó hann væri minni en áður.
Bústörfin voru áfram að miklu leyti í höndum Ingu því Sigurður vann áfram í
brúarvinnuflokknum austur á landi.
Vinkilbeygja varð á lífshlaupi Ingu haustið 1967 þegar þau Sigurður slitu
samvistir og flutti hún þá ásamt þremur börnum sínum í Herðubreið á
Skagaströnd. Sigurður yngri fór austur með föður sínum. Við þessa lífsreynslu,
sem sambandsslitin vissulega voru, lét Inga ekki hugfallast frekar en endranær
heldur efldist við hverja raun. Inga hóf störf við fiskvinnslu hjá Hraðfrystihúsi
Hólaness og síðar rækjuvinnslunni á Skagaströnd. Haustið 1976 gerðist hún
starfsmaður grunnskólans á Skagaströnd, fyrst við ræstingar og síðar einnig