Húnavaka - 01.05.2011, Page 173
H Ú N A V A K A 171
fyrsti matráður Höfðaskóla. Ingibjörg varð að láta af störfum í skólanum um
1995 þegar heilsan tók að bresta. Skömmu síðar eða 1996 flutti hún í íbúð
fyrir aldraða í Nestúni á Hvammstanga og átti þar sitt ævikvöld.
Þótt mikið væri oft á tíðum að gera í móður-, húsmóður- og búkonuhlutverk-
um þá hélt Inga sér alltaf vel og gekk snyrtilega um heimili sitt og umhverfi.
Inga var mikil handavinnukona og vann mikið í höndum fram á síðasta dag.
Gestrisni var Ingibjörgu í blóð borin og þegar vinir og vandamenn kíktu í
heimsókn voru jafnan dekkuð borð og glatt á hjalla. Ingibjörg var félagslynd
og hláturmild kona og hafði gaman af að grípa í spil eða syngja og dansa.
Einnig voru ferðalög hennar líf og yndi og ferðaðist hún mikið bæði innanlands
og utan m.a. með félögum eldri borgara.
Ung fékk Ingibjörg svokallaða Akureyrarveiki en afleiðingar hennar höfðu
áhrif á líf hennar alla tíð. Á árunum 1991 til 2002 fékk Inga þrjár
heilablæðingar. Eftir hvert áfall fyrir sig tók við langvinn endurhæfing og
þjálfun en Inga var einatt einbeitt og ákveðin í því að komast á fætur aftur og
verða sjálfbjarga, búa í eigin húsnæði og hugsa um sig sjálf. Síðasta áfallið um
miðjan september var þungt og varð líkami hennar undan að láta á
Sjúkrahúsinu á Akranesi.
Ingibjörg var jarðsungin frá Hvammstangakirkju 1. október og jarðsett í
Kirkjuhvammskirkjugarði.
Sr. Magnús Magnússon.
Guðmundur Sigurbjörn Guðmundsson,
Fossum
Fæddur 20. febrúar 1930 – Dáinn 24. september 2010
Guðmundur Sigurbjörn, eða Bjössi eins og hann var oftast nefndur, var
fæddur á Fossum í Fossárdal. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur
Guðmundsson, 1893 – 1976, bóndi á Fossum og Guðrún Þorvaldsdóttir, 1901
- 1949, frá Villingadal í Eyjafirði. Guðmundur var gildur bóndi og heimilið
þekkt fyrir rausn og gestrisni.
Eldri bróðir Bjössa er Sigurður, bóndi á Fossum en yngri er Sigurjón, áður
bóndi á Fossum, nú búsettur á Blönduósi.
Bjössi naut barnafræðslu í farskóla heima í sveitinni hjá Bjarna Jónassyni í
Blöndudalshólum og einhverja tilsögn hlaut hann hjá sr. Gunnari Árnasyni á
Æsustöðum. Vetrartíma var hann vinnumaður hjá Guðmundi Jósafatssyni á
Brandsstöðum en sinnti að öðru leyti bústörfum heima og var menntaður í
þeim skóla sem lífið veitir.
Árið 1959 réðist sem kaupakona að Fossum, Jóna Sigþrúður Stefánsdóttir,
f. 1925, fædd og uppalin að Ekru í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði. Þau
Bjössi felldu hugi saman og gengu í hjónaband 8. apríl 1960. Jóna er hógvær
kona að allri gerð og búkona góð. Hjónaband þeirra í 50 ár var einstaklega
farsælt.