Húnavaka - 01.05.2011, Qupperneq 174
H Ú N A V A K A 172
Börn þeirra urðu fjögur og eru þessi, talin í aldursröð: Stefán Sigurbjörn, f.
1961, kona hans er Una Sigurðardóttir. Guðrún, f. 1962, maður hennar er
Magnús Guðjónsson. Guðmundur, f. 1966, kvæntur Helgu Þorbjörgu
Hjálmarsdóttur. Borgþór Ingi, f. 1972.
Við komu Jónu á heimilið tóku þeir bræður við jörð og búi á Fossum og
bjuggu eftir það einskonar félagsbúi ásamt föður þeirra þar til hann lést en árið
1995 dró Sigurjón sig út úr búskapnum og flutti
til Blönduóss. Jörðinni skiptu þeir upp með
aðskilið skepnuhald en unnu sameiginlega að
heyöflun og öðrum bústörfum. Flutt var inn í nýtt
íbúðarhús, steinsteypt, árið 1957, útihús voru reist
úr varanlegu efni og ræktuð upp víðlend tún
frammi í dalnum. Segja má að á Fossum hafi um
langa hríð búið eins konar stórfjölskylda þar sem
ungir og aldnir unnu saman og ekkert kynslóðabil
þekktist.
Bjössi var bóndi af lífi og sál, ekkert annað
starf hefði hann fremur kosið sér, hann átti
afurðagott fé og naut þess að umgangast sínar
skepnur. Hann var heimakær að eðlisfari, kunni
best við sig heima að sýsla við bústörfin. Vinnu stundaði hann í sláturhúsinu
á Blönduósi mörg haust, auk þess nokkuð veiðiskap, m.a. grenjavinnslu og
gekk til rjúpna. Hann var góður gangnamaður, fór í fjölmargar göngur og
eftirleitir á Eyvindarstaðaheiði í misjöfnum veðrum, þekkti manna best til og
heiðin var honum kær. Gestagangur var jafnan mikill á Fossum, ekki hvað síst
í sambandi við göngur og smalamennskur og þá oft margt um manninn en
öllum er að garði bar var tekið með eðlislægri gestrisni og rausn húsráðenda.
Bjössi var einkar greiðvikinn maður og hjálpsamur og til hans gott að leita
með hvaðeina er hann gat úr greitt. Hann var einlægur að eðlisfari og tranaði
sér lítt fram, tók ekki opinberlega þátt í félagsstörfum en lagði góðum málum
lið, vann störf sín í kyrrþey og lagði metnað í að leysa þau sem best af hendi.
Heimilið og fjölskyldan var honum kærast alls og henni helgaði hann krafta
sína alla.
Bjössi var greindur maður og glöggur, víðlesinn og fróður og gott við hann
að ræða um málefni lands og þjóðar en á þeim hafði hann sterkar skoðanir,
fremur róttækur að lífsskoðun, unni ættjörð sinni og umhverfi og vildi standa
dyggan vörð um hvort tveggja.
Síðustu misserin var heilsan tekin að bila en hann hlífði sér aldrei og stóð
meðan stætt var. Hann var heima meðan kostur var. Banalegan var stutt.
Guðmundur Sigurbjörn lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri og var útför hans
gerð frá sóknarkirkju hans á Bergsstöðum 2. október, í hinu fegursta haust-
veðri.
Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson.