Húnavaka - 01.05.2011, Side 177
H Ú N A V A K A 175
Björn Magnússon
frá Syðra Hóli
Fæddur 26. júní 1921 – Dáinn 13. nóvember 2010
Björn var fæddur að Syðra-Hóli í Vindhælishreppi, sonur hjónanna Magnúsar
Björnssonar bónda og fræðimanns, 1889-1963 og Jóhönnu Guðbjargar
Albertsdóttur frá Neðstabæ, 1897-1996. Björn var þriðji í röð sex systkina en
þau eru: Hólmfríður f. 1918, Jóhanna María f. 1919, Sveinbjörn Albert,
1923-1987, Guðrún Ragnheiður, 1925-1938 og Guðlaug Ásdís f. 1931.
Björn ólst upp á Syðra Hóli og hlaut hina hefðbundnu barnaskólamenntun
þess tíma. Hann fór ekki í framhaldsnám en ólst upp við góðan bókakost þar
sem faðir hans átti fjölda bóka og stundaði fræðistörf samhliða búskap. Hann
kenndi börnum sínum íslensk fræði og kynnti fyrir
þeim bókmenntir, bæði fornar og nýjar.
Á yngri árum vann Björn á búi foreldra sinna
að Syðra-Hóli og var með nokkurn bústofn sjálfur
en fór einnig til sjós nokkrar vertíðir. Hann tók
formlega við búinu á Syðra-Hóli árið 1955 og bjó
þar í 40 ár eða þar til Magnús sonur hans tók við
árið 1995.
Á fyrstu búskaparárum Björns var íslenskur
landbúnaður að breytast úr sjálfsþurftarbúskap í
matvælaframleiðslu sem gerðar voru sívaxandi
kröfur til. Tæknivæðingin hafði þá hafið innreið
sína með bættum samgöngum og allt krafðist
endurnýjunar og endurbóta, hvort heldur var
húsakostur, ræktun, vélar eða verkfæri, að ekki sé talað um alla hugsun og
kunnáttu í búrekstri. Í gegnum þetta allt fór Björn með glöggskyggni hins góða
bónda en jafnframt hófsemd þess sem vildi ekki rasa um ráð fram eða taka
áhættu með skuldsetningu. Hann byggði upp húsakostinn á jörðinni, ræktaði
og stækkaði búið og gerði það að góðri og hagkvæmri bújörð.
Hann var bæði verklaginn og duglegur til allra verka sem hann gekk í og
gerði sömu kröfur til annarra. Hann var góður verkstjóri og gætti ætíð að
velferð þeirra sem störfuðu hjá honum og fór vel með það æskufólk sem dvaldi
að Syðra-Hóli sumarlangt. Hann hafði gjarnan í heiðri þá gömlu vinnureglu
að hollast væri að vinna vel, borða vel og sofa vel.
Björn kvæntist, 5. nóvember 1966, Ingunni Lilju Hjaltadóttur frá
Skeggjastöðum í Skagahreppi f. 1943. Foreldrar hennar eru Hjalti Árnason frá
Víkum og Anna Lilja Magnúsdóttir frá Skeggjastöðum. Börn Björns og
Ingunnar eru:
Anna Lilja fædd 1967, hennar maður er Ásgeir Vilhelm Bragason og eiga
þau þrjú börn.