Húnavaka - 01.05.2011, Page 240
H Ú N A V A K A 238
eru óþrjótandi varðandi allar kirkjur-
nar í prestakallinu.
Eins og fyrri sumur var Þingeyra-
kirkja opin ferðamönnum og sáu
háskólanemar þar um gæslu, leiðsögn
og fræðslu. Klausturstofan á Þing-
eyrum er til fyrirmyndar varðandi alla
aðstöðu fyrir heimamenn og ferða-
menn. Blönduósskirkja var einnig
opin fyrir ferðamenn og sáu eldri-
borgarar um leiðsögn, fræðslu og
gæslu en þessar kirkjur í prestakallinu
heimsækja mörg þúsund ferðamenn
yfir sumarmánuðina.
Sr. Sveinbjörn Einarsson.
SKAGABYGGÐ.
Veðrátta árið 2010 var hagstæð
eins og undanfarin ár hafa verið. Þó
var nokkur þurrkatíð um sumarið og
kom það niður á sprettu á sumum
bæjum. Ekki virðist vera neitt lát á
þessu góðviðri sem hefur umleikið
okkur undanfarin ár.
Íbúar í Skagabyggð voru 105 sam-
kvæmt íbúaskrá Hagstofunnar 1. des-
ember síðastliðinn. Það er fækkun um
einn frá árinu áður. Í Skagabyggð er
stór hópur barna á grunnskólastigi. Í
Höfðaskóla eru 19 nemendur, í
Blöndu skóla eru 3 nemendur og 1
nem andi í Húnavallaskóla.
Íbúar í Skagabyggð búa við mjög
slæman vegarkost. Lítið var gert í
lagfæringum á vegi síðastliðið sumar.
Örþunnt malarlag var sett á hluta
vegar en það var fljótt að rjúka í burtu
á þurrviðrasömu sumri.
Sveitarstjórnarkosningar fóru fram
í maí síðastliðnum. Mikil endurnýjun
varð í sveitarstjórn þar sem þrír úr
fyrrverandi sveitarstjórn gáfu ekki kost
á sér. Þrír nýir komu því inn og allir
tengdust þeir fjölskylduböndum. Í
sveitarstjórn eru: Magnús Bergmann
Guðmannson bóndi á Vindhæli,
Helga Björg Ingimarsdóttir bóndi,
Höfnum, Valgeir Karlsson bóndi,
Víkum, Vignir Sveinsson bóndi,
Höfnum og Bjarney Jónsdóttir
ljósmóðir og bóndi, Tjörn.
Aðalskipulag Skagabyggðar, sem
unnið hefur verið að undanfarið, er
komið á lokastig og er nú hjá um-
hverfisráðherra til samþykktar. Áfram
hefur verið unnið að skráningu forn-
minja og er það nú á lokastigi. Í
sumar mun verða klárað að skrá forn-
minjar á eyðijörðum. Einnig hefur
verið haldið áfram við örnefna-
skráningu og hafa örnefni verið skráð
á 43 jörðum af 60. Það er ómetanlegt
að örnefni varðveitist. Segja má að
örnefni hafi verið staðsetningartæki
fyrri tíma, auk þess að nöfnin gefa
landslaginu meira vægi en tölur sam-
kvæmt nútíma mælitækjum. Örnefnin
gefa auk þess sögum frá liðinni tíð
aukið gildi.
Töluvert viðhald var á Skrapa-
tungurétt en kominn var tími á það.
Blönduósbær og Skagabyggð eru
rekstraraðilar Skrapatunguréttar og
hafa með sér samráð um rekstur og
viðhald á mannvirkjum þar.
Mikill straumur fólks lagði leið sína
að Ásbúðum seint í ágúst síðastliðið
sumar. Þar rak á fjörur steypireyði
mikla. Reyndist hún vera um 70-100
tonn á þyngd og 24,96 metrar á
lengd. Til gamans má láta fylgja með
að tungan var 5.000 kíló og hjartað
700 kíló. Tekin var sú ákvörðun að
bjarga beinagrindinni, setja hana upp
og hafa til sýnis. Komu aðilar frá
Náttúrufræðistofnun og unnu að því
ásamt heimamönnum að skera rengi
og kjöt utan af hvalnum og voru
beinin síðan flutt í öruggt skjól.