Lögmannablaðið - 01.03.2011, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.03.2011, Blaðsíða 24
24 lögmannablaðið tbl 01/11 Á léttUM nótUM af merði lögmanni Merði var nýverið boðið að taka þátt í umræðuþætti í sjónvarpinu. Hann gaf sér það að ástæða þess að honum var boðin þátttaka hafi átt rætur að rekja til máls sem hann rak fyrir bæði héraðsdómi og Hæstarétti og var mikið í fréttum. Hann hafði tapað málinu í héraði en náði viðsnúningi í Hæstarétti með góðum málskostnaði. Mörður var ánægður með sjálfan sig þar sem þetta var eitt af þeim málum sem hefði getað farið á hvorn veginn sem var. En þetta var almennur umræðuþáttur, þar sem þetta mál myndi ef til vill bera á góma og Mörður hefur haft þá afstöðu í að vera ekki að blanda sér í umræður á opinberum vettvangi, þótt hann hafi skrifað tvívegis greinarkorn í Morgunblaðið til þess að mótmæla annars vegar byggingu Ráðhúss Reykjavíkur á sínum tíma og hins vegar gegn Hvalfjarðargöngunum. Hann fann fyrir því að ýmsir af hans viðskiptamönnum voru ósammála honum og hann er alveg viss um það að kúnni einn á Skaganum hætti að láta heyra frá sér í framhaldi af greininni um Hvalfjarðargöngin. Mörður var andsnúinn aðild Íslands að EES á sínum tíma, en hefur nú alveg snúið við blaðinu og er nú hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Merði var því nokkur vandi á höndum. Átti hann að taka þátt í þessum umræðuþætti eða ekki? Hvað ef hann þyrfti að fara að tjá sig um Evrópusambandið? Mörður hefur unnið mikið fyrir bændur í gegnum tíðina og flestir bændur, þ.m.t. helstu forkólfar samtaka þeirra, eru vissir um það að með aðild að ESB þurrkist landbúnaður á Íslandi út. Hann hefur án árangurs reynt að sannfæra nokkra skjólstæðinga sína úr bændastétt að þeirra hagsmunum væri betur borgið innan bandalagsins en utan og alltaf gefið eftir eða látist vera sammála. Mörður var búinn að vera nokkur ár í lögmennsku þegar hann áttaði sig á því að til væru siðareglur lögmanna, Codex ethicus. Hann fékk málflutningsréttindi sín nefnilega áður en mönnum var gert að sitja námskeið til öflunar slíkra réttinda. Þessi skortur á vitneskju Marðar um siðareglurnar hafði alls ekki komið honum um koll neitt sérstaklega, enda er Mörður vel upp alinn með kristileg gildi í fyrirrúmi. Án þess fletta upp ákvæði siðareglna varðandi aðstæður sem þessar þá ákvað Mörður að hafa samband við skjólstæðing sinn úr dómsmálinu og bera það undir hann hvort hann ætti að mæta í umræðuþáttinn. Þessi skjólstæðingur hans, þjóðþekktur maður, sagðist svo sem vera búinn að fá alveg nóg af umfjöllun um þetta mál. Hann tók þó fram að hann gerði ekki athugasemdir við það þótt Mörður mætti í þennan þátt, en bað hann að víkja sér undan umræðum um málið. Ekki leysti þetta samtal vanda Marðar. Það var ótrúlegt hvað hann átti erfitt með að komast að niðurstöðu um hvað hann skyldi að gera. Gamla kristilega hugarfarið virtist ekki duga. Þá leit hann í Codex ethicus en þar segir í 5. gr.: „Í umræðu í fréttamiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi um mál, sem lögmaður hefur eða hefur haft til meðferðar, ber honum að virða óskir skjólstæðings síns um að ekki sé fjallað um málið af hans hálfu“. Merði fannst hann standa sig vel í dómsmálinu og var þess vegna meira en til í að skýra það nánar í sjónvarpinu. Hann hefur sterkar skoðanir á ýmsum öðrum málum, eins og Evrópumálunum, sem hann er hræddur við að viðra opinberlega vegna þess að sumum af viðskiptamönnum hans kynni að mislíka það. Hann hafði því persónulega hagsmuni af því að fjalla um dómsmálið opinberlega, en það var ekki í þágu hans skjólstæðings og eiginlega þvert gegn vilja hans að hann fengi að skreyta hatt sinn með því. Þar með gat hann losnað undan því að þurfa að tjá sig um Evrópumálin á opinberum vettvangi. Mörður fór í staðinn norður á Akureyri á skíði.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.