Lögmannablaðið - 01.03.2013, Blaðsíða 20

Lögmannablaðið - 01.03.2013, Blaðsíða 20
20 lögMannaBlaðið tBl 01/13 Á léttUM nÓtUM af Merði lögmanni Eftir nokkra óvenju rýra mánuði hjá Merði í ýmsum hefðbundnum verkefnum, var svo komið að hann var farinn að líta ofan í skjalamöppur með „ófrágengnum“ málum. Mörður hefur aldrei verið með aðkeypt skjalavistunarkerfi og aldrei skilið hvaða tilgangi slíkt þjónar. Hann hefur einfaldlega staflað þeim málum sem þarf að vinna í hverju sinni næst sér á skrifborðið. Þegar hann er ekki lengur að vinna í málum fjarlægjast þau og færast nær skrifborðsendunum. Stöku sinnum tekur svo Mörður lokin mál af borðsendunum og setur í pappakassa. Kassana hefur hann fengið að geyma í bílskúr hjá gamalli konu að vestan. Eitt og eitt mál hefur þó lent í því að vera „ófrágengið“. Þá fara málsgögnin í hillurekka á bak við skrifborðsstólinn. Þetta eru t.d. mál sem Mörður ætlar ekki að vinna meira í fyrr en hann hefur fengið borgað inn á sína vinnu vegna þeirra. Þarna hafa líka dagað uppi nokkur mál sem hann hefur lengi ætlað sér að skoða betur þegar tími vinnst til. Þegar svoleiðis mál verða nógu gömul, enda þau gjarnan í bílskúrnum. T.d. þegar kúnnarnir falla frá, eða þegar Merði þykir óbærileg tilhugsun að setja sig inn í málin upp á nýtt og rifja upp hvað hefði e.t.v. verið rétt að gera í þeim. Eitt málið sem Mörður rakst á í hillunni snerist um fjarskylda frænku hans að vestan. Hún hafði dottið um hund bréfberans og rófubeinsbrotnað í útidyratröppunum heima hjá sér. Svo hafði henni verið eitthvað vitlaust sinnt fyrir sunnan og var búin að vera meira og minna heilsulaus síðan. Einhvern veginn hafði Merði aldrei tekist að ná neinum tökum á því hvort stefna ætti póstinum vegna hundsins eða húsfélaginu vegna ísingar á tröppunum eða spítalanum vegna meðferðarinnar. Í möppunni voru nokkur gömul bréf sem hann hafði sent í ýmsar áttir vegna málsins. Aðallega voru þarna samt ósvöruð bréf frá frænkunni. Þau elstu voru ósköp elskuleg og full þakklætis, en svo höfðu þau breytt um tón fyrir nokkrum árum og orðið að fyrirspurnum og loks skammarbréfum vegna þess að hann svaraði henni ekki. Mörður þakkaði sínum sæla fyrir gamla og góða segulbandssímsvarann sem gerði honum kleift að sía svona vesen frá. Þar hafði kerlingin verið eins og fastur dagskrárliður um margra ára skeið, en var nú sem betur fer hætt að hringja jafn oft. Mörður minntist þess frá fyrri yfirferðum sínum yfir hilluna með ófrágengnum málum að hafa stundum sett þetta mál á skrifborðið. Þá hafði hann einsett sér að ýta þessu áfram. Honum fannst málið þó ævinlega of snúið og frænkan of súr til að koma sér að þessu. Málið rann því jafnan sína leið út á borðshornið og svo til baka í hilluna. Yngstu bréfin í þessari möppu voru áberandi skjannahvít í samanburði við gulnuð ljósritin af bréfum Marðar. Þar var t.d. bréf frá einhverri nýútskrifaðri stelpu sem ekkert kunni í samskiptum við kollegana og hafði sent Merði harðort kröfubréf um að fá þegar í stað öll gögn málsins afhent. Mörður hafði eiginlega ætlað sér að hringja í hana og leiðbeina henni, en ekkert orðið af því. Nýjasta bréfið var svo frá einhverjum pótintátum í einhverri nefnd í Lögmannafélaginu sem höfðu fengið kvörtun frá frænkunni og óskuðu eftir greinargerð frá honum, rétt eins og hann væri glæpamaður. Mörður dæsti. Hann sá að það var útilokað að færa málið úr „ófrágengið“ og í „lokið“. Frænkan var samt komin á sjötugsaldur og langlífi hafði nú ekki beinlínis einkennt hennar fólk. Hann hripaði því niður bréf til nefndarinnar um að eiginlega væri þessi frænka sín hálfbiluð manneskja og hefði lagt hann í einelti. Hann hefði fyrir löngu útskýrt fyrir henni að þetta mál væri mjög flókið og það krefðist mikillar yfirlegu að taka ákvörðun um næstu skref. Hann myndi hér eftir sem hingað til hafa samráð við hana, en hún ætti reyndar eftir að greiða töluverðan kostnað. Auk þess þyrfti hann að fá alllangan frest ef hann ætti að skila ítarlegri greinargerð þar sem hann væri að fara í erfiða læknisaðgerð. Skjalamöppuna ákvað Mörður að best væri að leggja á skrifborðið miðja vegu á milli sætisins og borðshornsins. Hann ætlaði að sjá til hvort hann gæti ekki litið betur á þetta fljótlega.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.