Fréttablaðið - 08.12.2014, Síða 14
8. desember 2014 MÁNUDAGURSKOÐUN
HALLDÓR
FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík Sími: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is AÐSTOÐARFRÉTTASTJÓRI: Andri Ólafsson andri@frettabladid.is VIÐSKIPTI: Fanney Birna Jónsdóttir fanney@frettabladid.is HELGARBLAÐ: Erla Björg Gunnarsdóttir erla@frettabladid.is
MENNING: Friðrika Benónýsdóttir fridrikab@frettabladid.is VÍSIR: Kolbeinn Tumi Daðason, kolbeinntumi@365.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Sæmundur Freyr Árnason sfa@frettabladid.is ÚTLITSHÖNNUN: Silja Ástþórsdóttir siljaa@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Ingibjörg S. Pálmadóttir FORSTJÓRI: Sævar Freyr
Þráinsson ÚTGEFANDI OG AÐALRITSTJÓRI: Kristín Þorsteinsdóttir kristin@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRI:
Sigurjón M. Egilsson sme@frettabladid.is. Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á
höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslun um á landsbyggðinni. Fréttablaðið
áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
FRÁ DEGI
TIL DAGS
Stjórnarandstaðan hefur sameinast um
breytingartillögur við fjárlagafrumvarp
ríkisstjórnarinnar. Það er tilraun til að
stöðva nokkrar verstu tillögur ríkisstjórn-
arinnar og meirihluta fjárlaganefndar sem
margar hverjar vega að grunngildum sam-
félagsins sem áralöng sátt hefur ríkt um.
Nemendur 25 ára og eldri eiga að halda
rétti sínum til að stunda nám í framhalds-
skólum, bæta á kjör öryrkja og eldri borg-
ara, ekki á að ganga á rétt atvinnulausra
til bóta, útvarpsgjald á að vera óskert og
renna allt til RÚV eins og lög gera ráð fyrir.
Í tillögunum er líka að finna mörg önnur
réttlætis- og mannréttindamál. Einnig eru
tillögur um framkvæmdir á ferðamanna-
stöðum og til annarrar atvinnuuppbygg-
ingar.
Í tillögum stjórnarandstöðunnar er lagt
til að Landspítalinn fái fjármagn til að
sinna nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði. Lagt
er til að rekstur spítalans verði styrktur svo
hægt sé að vinna á biðlistum sem lengjast
enn vegna læknaverkfalls og að komið verði
til móts við vanda BUGL. Ef fjárlög taka
ekki breytingum nú í desember þá mun
kostnaðarþátttaka sjúklinga hafa aukist
um 1.900 milljónir króna í tíð sitjandi ríkis-
stjórnar og það án þess að nein stefnumark-
andi umræða hafi farið fram. Þetta er gert
þrátt fyrir að næstum 4% landsmanna hafi
neitað sér um heilbrigðisþjónustu vegna
mikils kostnaðar árið 2012. Sambærilegt
hlutfall á Norðurlöndum er nærri núlli og
þangað eigum við að stefna.
Leynt og ljóst er verið að færa kostnað
frá ríkinu til sjúklinga. Það er ekki gert í
nauðvörn til að ná mikilvægu markmiði um
hallalaus fjárlög. Þetta gerist núna þegar
staða ríkissjóðs batnar ár frá ári og meðan
að ríkisstjórnin tekur ákvarðanir sem leiða
til minni tekna af auðlindum landsins.
Þessa þróun þarf að stöðva strax. Annars
fylgir enn meiri ójöfnuður og misskipting
í kjölfarið.
Náum samstöðu um tillögu sameinaðrar
stjórnarandstöðu um að hækka ekki gjöld á
sjúklinga og tryggjum heilbrigðisþjónustu
allra óháð efnahag.
Tveir milljarðar í nýja sjúklingaskatta
FJÁRMÁL
Oddný G.
Harðardóttir
þingmaður
Samfylkingarinnar
➜ Ef fjárlög taka ekki breytingum
nú í desember þá mun kostnaðar-
þátttaka sjúklinga hafa aukist um
1.900 milljónir króna í tíð sitjandi
ríkisstjórnar og það án þess að nein
stefnumarkandi umræða hafi farið
fram. Þetta er gert þrátt fyrir að
næstum 4% landsmanna hafi neitað
sér um heilbrigðisþjónustu vegna
mikils kostnaðar árið 2012.
Gleymdi Davíð Geir?
„Þannig sátu Ólafur Ragnar Gríms-
son og Jón Sigurðsson báðir sem
ráðherrar í ríkisstjórn án þess að
eiga sæti á þingi þegar það gerðist.
En báðir voru þeir flokksformenn og
þurfti enginn að efast um stjórn-
málalega ábyrgð þeirra, enda reyndi
hvorugur þeirra að skjóta sér undan
henni,“ þannig skrifar Davíð Oddsson
í leiðara Morgunblaðsins af því tilefni
að utanþingsráðherrann, Ólöf Nordal,
sest nú í ráðherrastól. Davíð nefnir
þáverandi formennina Jón og
Ólaf Ragnar en gleymir, eða
sleppir, að nefna fyrrverandi
formann Sjálfstæðisflokksins,
Geir Hallgrímsson, sem náði ekki
kjöri til Alþingis þrátt fyrir að
vera þá formaður Sjálf-
stæðisflokksins.
Ekki hrifinn af Gylfa og Rögnu
Davíð Oddsson fer einnig nokkrum
orðum um þau Rögnu Árnadóttur og
Gylfa Magnússon, sem sátu um tíma í
ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. „Þeir
[ráðherrarnir] virtust stundum líta svo
á að þar sem þeir sætu hvorki í umboði
almennings né þingsins í ríkisstjórn
væru þeir þar með ábyrgðarlausir af
pólitískum athöfnum þeirrar ríkisstjórn-
ar sem þeir sátu í. Virtust þeir telja sig
gegna einhvers konar embættismanna-
hlutverki þar og að pólitískir
gerningar, sem framdir voru
á ábyrgð ríkisstjórnarinnar
og þingmeirihlutans, sem
hún studdist við, væru þeim
óviðkomandi, þótt þeir sætu
við ríkisstjórnarborðið
þar sem ákvarðanir
voru stimplaðar.“
Ekki nema von að spurt sé
Svandís Svavarsdóttir vill svör frá
Bjarna Benediktssyni vegna sölu
Landsbankans í Borgun, hvers vegna
söluferlið hafi verið lokað, hvort það
hafi verið athugað að greiðslan sé
sú hæsta mögulega og hvort uppi
séu áform um að selja einnig 38
prósenta eignarhlut Landsbankans
í greiðslukortafyrirtækinu Valitor.
Og ef svo sé hvort það verði einnig
sett í lokað söluferli. Skal nú engan
undra. Víst er að bankanum hefur
ekki með nokkru móti tekist
að svara, svo fólk nái að skilja
svörin, hvers vegna ákveðið
var að hafa söluna með þeim
hætti sem gert var. Kannski
tekst fjármálaráðherra
betur.
sme@frettabladid.is
L
ekamálinu svokallaða er næstum lokið. Opinberu valdi
var misbeitt til að brjóta á einstaklingum og flestir
þeirra sem tengdust málinu, beint eða óbeint, hafa þurft
að axla ábyrgð, bæði pólitískt og með dómi. Reyndar er
ekki útséð með hvort einhverjir embættismenn verða
einnig dregnir ofan í díkið en tíminn mun leiða það í ljós.
En það er því miður sorglega einfeldningslegt að halda að slíkt
muni ekki koma fyrir aftur. Það sem gerði lekamálið sérstakt var
að tjón einstaklinganna sem urðu fyrir lekanum var svo bersýni-
legt og augljóst. Mun algengara er hins vegar að opinbert vald
sé misnotað þannig að einhver hafi af því hagnað; fjárhagslegan,
efnislegan eða pólitískan. Framtíðartjón þeirra sem verða fyrir
barðinu á slíkri misbeitingu;
missa af stöðu, embætti, verkefni
og svo framvegis, er hins vegar
yfirleitt óljóst og illmælanlegt.
Lekamálið mun ef til vill ekki
gerast með sama hætti og á sama
skala í nánustu framtíð, en slík
misbeiting opinbers valds er því
miður algeng og líklegast mun
algengari en við höldum. Þannig var það einmitt síðasta verk
forsætisráðherra sem dómsmálaráðherra að setja reglugerð um
lögregluumdæmi lögreglustjóra, um að sveitarfélagið Horna-
fjörður skuli teljast til umdæmis lögreglustjórans á Austurlandi.
Sigmundur færði þannig lögregluna á Höfn úr Suðurkjördæmi í
Norðausturkjördæmi – sitt kjördæmi.
Formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sagði ráðstöf-
unina lykta af „gamaldags hreppapólitík“ í fréttum Stöðvar tvö
um helgina. „Þetta er ákvörðun sem gengur gegn allri vinnu sem
unnin hefur verið, hann þarf að útskýra hana,“ sagði Unnur Brá
Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður alls-
herjarnefndar Alþingis, í samtali við Fréttablaðið. Þeir sem hafa
tjáð sig um málið segja mikla vinnu standa að baki ákvörðuninni
að hafa lögregluna á Höfn í Suðurkjördæmi. Undirbúningur hefur
staðið yfir frá sumri og flutningurinn var til kominn vegna frum-
kvæðis frá innanríkisráðuneytinu. Vegna þessa var búið að fast-
setja vaktir lögreglu og hjúkrunarfólks, lögreglustjóri Suðurlands
heimsótti bæjarstjórn í haust og ræddi fyrirkomulagið, skipurit,
almannavarnir og fleira varðandi löggæsluna. Nýr innanríkisráð-
herra hyggst skoða málið og taka í kjölfarið sjálfstæða ákvörðun
um hvort afturkalla eigi reglugerð Sigmundar.
Misbeiting opinbers valds getur þannig einfaldlega birst í því
að ákvarðanir eru teknar án þess að að baki þeim standi fagleg
vinna sérfræðinga og frekar að hvatar þeirra séu pólitískir,
stjórnmálamönnum til hagsbóta. Þannig fá þeir sem eru inn undir
hjá stjórnmálamönnum sínu framgengt, aðrir ekki.
Málið er ekki þannig vaxið að allt fari á hliðina eins og gerðist
í lekamálinu. Enginn mun hljóta af því persónulegan skaða.
Hins vegar kristallast í því pólitík sem árið 2014 á ekki að sjást.
Hreppapólitík er réttnefni. Stjórnmálamenn eru kjörnir í sínum
kjördæmum og ekkert er að því að þeir reyni að beita sér fyrir
því að þeirra sveitir njóti sanngirnis og ekki sé á þær hallað.
Ráðherrar hafa hins vegar í gegnum tíðina beitt sér miskunnar-
og grímulaust fyrir sérhagsmunum kjördæma sinna með sama
hætti og forsætisráðherra gerði í sæti dómsmálaráðherra. Það er
gamaldags pólitík sem á ekki að sjást og ef lekamálið á að hafa
kennt okkur eitthvað þá er það það að misbeiting opinbers valds
til hagsbóta fyrir ráðherra er ólíðanleg.
Misbeiting opinbers valds er sorglega algeng:
Gamaldags pólitík
Fanney Birna
Jónsdóttir
fanney@frettabladid.is