Öldrun - 01.02.2003, Blaðsíða 12

Öldrun - 01.02.2003, Blaðsíða 12
12 ÖLDRUN – 21. ÁRG. 1. TBL. 2003 Fyrstu fimm félagsliðarnir útskrifast frá Námsflokkum Reykjavíkur. einnig ætluð starfsfólki á öldrunarstofn- unum. Heilabilunareining LSH Landa- koti hefur í nokkur ár staðið fyrir nám- skeiðum um heilabilun og hefur meðal annars reynt sérstaklega að höfða til starfsfólks heimaþjónustu. Sú kennslu- aðferð er kannski ekki sú heppilegasta þar sem í hvert skipti mæta um og yfir 100 manns. Flestar kenningar um nám fyrir fólk með bæði starfsreynslu og lífs- reynslu ganga út á það að hafa nemand- ann í brennidepli og að kennarinn er ekki sérfræðingurinn heldur geta nem- endurnir sjálfir miðlað heilmiklu af sinni reynslu í kennslustundum. Kennslan á því að gefa nemendunum færi á að nýta reynslu sína, gera lausnarmiðaðar æfing- ar og læra út frá raunverulegum dæm- um. Einnig þarf andrúmsloftið að vera afslappað og efnið spennandi (Guariglia, 1996; Innes, 2000). Kennsla um heila- bilun þyrfti því helst að fara fram í litlum hópum þar sem þátttakendur eru einungis starfsfólk heimaþjón- ustu og deila því sama reynsluheimi. Skapa þarf þannig andrúmsloft að nemendurnir séu óhræddir við að spyrja og segja frá reynslu sinni. Þá þarf að beita mismunandi kennsluaðferðum og notast við dæmi úr raunveruleikanum. Víða erlendis, þar sem sérstakt átak hefur verið gert í heimaþjónustu fyrir fólk með heilabilun, hefur komið í ljós að meiri þekking starfsfólks á heilabilun veldur því að algeng vandamál verða sjaldgæfari auk þess sem starfsfólkið öðlast meira sjálfsöryggi og hefur meiri ánægju af starfinu. Fræðsla um heilabilun ásamt umbun í formi kauphækkunar getur auk þess minnkað tíðni mannaskipta í heimaþjónustunni sem einkum er áberandi á heimilum sjúklinga með mikla andlega og/eða líkamlega skerðingu (Gang, 1995; Hjorth-Hansen, 1997). Það væri því mjög þarft að slík fræðsla yrði aukin hér á landi. Það mætti til dæmis hugsa sér hana sem hluta af námsefni félagsliðabraut- arinnar í Borgarholtsskóla, kannski hálfur til heill dagur, og síðan gæfist nemendum kostur á fjögurra mánaða starfsþjálfun í dagvistun fyrir heilabilaða eða á sjúkradeildum fyrir slíka sjúklinga. Einnig væri æski- legt að fræðsla um heilabilun fengi meira vægi hjá Námsflokkunum, einkum um félagslega þætti, eins og um samskipti og örvun varðandi athafnir daglegs lífs. Eftir að ritgerðin, sem byggir á þessari rannsókn, kom út hafði Guðrún Halldórsdóttir, skólastjóri Náms- flokka Reykjavíkur, samband við mig og bað mig að kenna samskipti og umönnun sjúklinga með heila- bilun, bæði í grunnnáminu og í nýju námi fyrir fyrstu tilvonandi félagsliðana. Það var mér bæði ljúft og skylt að verða við því. Þann 18. desember síðastliðinn útskrifuðust fyrstu fimm félagsliðarnir frá Námsflokk- unum (sjá mynd) eftir mikla baráttu Guðrúnar og stétt- arfélagsins Eflingar fyrir því að starfsreynsla fólks ásamt grunnnáminu yrði metin að verðleikum upp í félagsliðanámið. Fimmmenningarnir höfðu þá fengið 10 kennslustunda fræðslu um heilabilun, samskipti, umönnun, samvinnu við aðstandendur og fleira. Við hátíðlega útskriftarathöfn afhenti skólastjórinn félags- liðunum ritgerðina sem útskriftargjöf og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Eflingar, færði þeim veg- lega blómvendi. Næsta rannsóknarspurning gekk út á að fá fram lýsingar starfsfólksins á því hvernig því líður við störf sín heima hjá skjólstæðingum með heilabilun. Í ljós kom að það getur verið erfitt að starfa á slíkum heim- ilum vegna þeirra einkenna sem fylgja sjúkdómnum eins og tortryggni, ranghugmyndir, verkstol, skert minni og fleiri. Mikill dagamunur getur verið á sjúk- lingum þannig að þeir eru mjög viðræðugóðir einn daginn en ómögulegir þann næsta. Þeir gera jafnan ráð fyrir að vera í forsvari á eigin heimili og starfsfólk þarf því að vera á varðbergi gagnvart því sem sjúklingurinn segir og gerir. Bandarísk rannsókn leiddi í ljós að góð heimaþjónusta einkennist meðal annars af því að starfsmenn leyfi skjólstæðingum að finna að þeir hafi stjórnina og að starfsmenn sýni þeim tillitssemi, virð- ingu og jákvætt viðmót þó aðstæður geti verið erfiðar (Piercy og Wooley, 1999). Þetta á ekki síst við um skjól- stæðinga með heilabilun. Það starfsfólk heimaþjónustu sem rætt var við í þessari rannsókn var allt komið um og yfir miðjan aldur og hafði því bæði talsverða starfsreynslu og lífs- reynslu. Öll höfðu þau einnig sótt þá fræðslu sem stétt- arfélagið bauð upp á hjá Námsflokkunum. Þau leystu ýmis vandamál sem komu upp í samskiptum þeirra við heilabilaða skjólstæðinga á afar nærfærinn hátt eftir eigin hyggjuviti. Sum þeirra höfðu reynslu af um- önnun fjölskyldumeðlims með heilabilun. Þau mynd-

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.