Bændablaðið - 16.04.2014, Page 16
16 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014
Mér leiðast fermingarveislur.
Eiginlega eru fáar samkomur
sem mér leiðast eins óskaplega.
Ég veit ekki alveg hvað það er
sem gerir það að verkum að mér
finnast fermingarveislur svona
ofsalega leiðinlegar. Nú er ég ekki
sérstaklega ómannblendinn, mér
finnst ágætt að borða kökur og
þó ég sé kannski ekki neitt mjög
ættrækinn er þó ágætt að hitta
ættingja sína við þessi tækifæri,
sjá ný börn sem hafa bæst við í
ættina, nýja maka eða gamlar
frænkur sem eiga enn í mér
hvert bein eftir að hafa passað
mig sem barn. En mér leiðast
þessar veislur. Ofboðslega.
Í engri fermingarveislu
hefur mér þó leiðst jafn mikið
og minni eigin. Ekki var það
fyrir að ofurkonan hún móðir
mín hafi ekki staðið að henni
eins og best varð á kosið, með
matarveislu og tilheyrandi sem
hefði vel getað sómt sér við 200
ára afmæli Reykjavíkurborgar. Ég
fékk drjúgt af fínum gjöfum og
græddi á öllu saman. Nokkrum
árum seinna sagði ég mig síðan
úr þjóðkirkjunni enda verið vita
trúlaus frá því ég man eftir mér,
líka þegar ég fermdist. En það er
ekki þess vegna sem ég hefi þessa
ímugust á fermingarveislum.
Ég held að ástæðan fyrir
þessari andúð minni sé sú að ég
man hversu ofsalega mér leiddist
sjálfum á fermingardaginn minn.
Kannski þetta sé einhvers konar
áfallastreituröskun? Í það minnsta
fyllist ég mikilli samkennd með
fermingarbörnum þegar ég kem í
veislurnar þeirra. Ég er sannfærður
um að þeim leiðist jafn mikið í
sinni veislu og mér leiddist í minni.
Og hvernig má annað vera?
Ferming fer almennt fram á versta
hugsanlega tíma í lífi hverrar
manneskju. Að vera 13 eða 14
ára unglingur er nefnilega ekkert
grín. Unglingar er sjálfhverfustu
og viðkvæmustu blóm sem til eru.
Minnstu atburðir geta valdið slíku
hugarangri að unglingnum finnst
sem heimurinn muni aldrei verða
samur aftur.
Heill fermingardagur er
kvalræði fyrir unglinginn.
Unglingurinn vaknar með hnút í
maganum að morgni en jafnframt
yfirfullur af spennu. Ekkert má
klikka. Það má ekki gleyma því
sem þarf að segja í kirkjunni.
Það má ekki stíga í kjólfaldinn
og hrasa, þá er lífið búið. Þegar
komið er í veisluna þarf síðan
að standa og taka í höndina á
fólki sem unglingurinn hefur
hugsanlega ekki séð síðan hann
var fimm ára, eða jafnvel aldrei.
Unglingurinn er neyddur til að
bjóða gesti velkomna, segja þeim
að gera sér gott af veitingunum.
Það getur verið þrautin þyngri
fyrir unglinginn sem segir kannski
aldrei neitt á opinberum vettvangi.
Og svo vilja allir spjalla. Gömlu
frændurnir og afasysturnar ryðja út
úr sér innihaldslausum frösum um
hvað unglingurinn sé nú orðinn
stór, hvað hann sé líkur þessu eða
hinu ættmenninu og hvað það sé
nú langt síðan þau hafi séð hann
síðast. Unglingar eru ekki orðnir
útfarnir í þeirri list að sem svona
spjall er, flestum þeirra finnst þetta
jaðra við að þurfa að hlusta á heila
sinfóníu eftir Mahler eða horfa á
íranska bíómynd sem sýnd er í
Ríkissjónvarpinu.
En kannski er þetta algjört rugl
í mér. Kannski elska unglingar
fermingardaginn sinn, athyglina,
veisluna, samfundi með ættingjum,
spjallið. Kannski. En kannski ekki.
/fr
STEKKUR
Áfalla streitu-
röskun eftir
fermingu
Frábær árangur kjötiðnaðarmanna SS á Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna:
Fengu verðlaun fyrir 90% af þeim
vörum sem þeir sendu í keppnina
– Hlutu 14 gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun
Kjötiðnaðarmeistarar SS með verðlaun sín, talið frá vinstri: Steinar Þórarinsson, Bjarki Freyr Sigurjónsson, Jón Þorsteinsson og Björgvin Bjarnason með
verðlaunagripi sína. Á myndina vantar feðgana Hrafn Magnússon og Daníel Inga Hrafnsson. Mynd / ÖRS
Þessi mynd var tekin 7. apríl, þegar húnvetnskir kúabændur heimsóttu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þeir fengu sér að snæða í mötuneytinu
og um leið var þeim sagt frá námi við skólann. Karvel Karvelsson, framkvæmdastjóri Rannsóknarmiðstöðvar landbúnaðarins, sagði þeim frá starfsemi
RML og síðan fóru bændurnir í Landbúnaðarsafn Íslands. Þá var ferðinni heitið að Helgavatni, en Jóhannes Torfason bóndi á Torfalæk var leiðsögumaður
hópsins. Mynd / Áskell Þórisson
Eins og greint var frá í síðasta
blaði stóðu kjötiðnaðarmenn SS
sig vel í glæsilegri Fagkeppni
Meistarafélags kjötiðnaðarmanna
í lok mars. Auk þeirra meistara
sem þar var getið sérstaklega með
sín gullverðlaun vakti athygli að
það voru hvorki fleiri né færri en
fimm kjötiðnaðarmenn SS sem
hlutu verðlaun í Fagkeppni MFK.
Þetta voru þeir Hrafn Magnússon,
Steinar Þórarinsson, Björgvin
Bjarnason, Bjarki Freyr Sigurjónsson
og Jón Þorsteinsson sendu samtals
19 vörur inn í keppnina. Hlutu
þeir fjórtán gullverðlaun, tvenn
silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.
Því hlutu 90% innsendra vara
verðlaun og þar af 75% gullverðlaun.
Auk þess féllu í þeirra skaut fimm
sérverðlaun auk hins eftirsótta
titils Kjötmeistara Íslands, sem Jón
Þorsteinsson vann með 250 stigum
eða fullu húsi stiga, en það hefur ekki
gerst fyrr í sögu keppninnar.
Í keppnina í heild bárust 143
vörur og hlutu 111 þeirra verðlaun
eða 78%. Gullverðlaun hlutu 35%
innsendra vara, 29% silfurverðlaun
og 13% bronsverðlaun. Á þessu má
sjá að árangur SS manna er einstakur.
Keppnin fer þannig fram að
kjötiðnaðarmenn senda inn vörur
með nafnleynd til dómarahóps,
sem dæmir vörurnar eftir faglegum
gæðum. Hver keppandi má senda
inn allt að 10 vörur til keppninnar.
Allar vörur byrja með fullt hús stiga
eða 50 stig. Dómarar leita síðan að
öllum hugsanlegum göllum. Við
hvern galla sem finnst, fækkar
stigum. Með þessu fyrirkomulagi
geta margar vörur haft gull-, silfur-,
eða bronsverðlaun.
Til þess að fá gullverðlaun þarf
varan að hafa 49-50 stig og vera
nánast gallalaus. Til þess að fá
silfurverðlaun þarf varan að hafa
46-48 stig og má aðeins vera með
lítilsháttar galla. Til þess að fá
bronsverðlaun þarf varan að hafa
42 til 45 stig.
Árangur einstakra manna er sem
hér segir:
Jón Þorsteinsson
Kjötmeistari Íslands fullt hús
stiga 250 stig.
Athyglisverðasta nýjung
keppninnar. Salami camemberti
Besta vara unnin úr hrossa- eða
folaldakjöti Salami camemberti
Besta hráverkaða varan Salami
camemberti.
Besta vara unnin úr svínakjöti.
Grísa Rillette
Átta gullverðlaun. Hangikjet,
Sölpylsur, Katalónskar
Bratwurstpylsur, Grísa Rillette,
Hreindýra lifrarkæfa, Salami
Camemberti, Bolabiti og
purupopp
Ein silfurverðlaun. Bökuð
nautalifrarkæfa
Steinar Þórarinsson
Besta varan unnin úr
alifuglakjöti. Lifrarkæfa með
jarðarberjahlaupi.
Fern gullverðlaun: Lifrarkæfa
með jarðarberjahlaupi,
Lifrarpylsa, Blóðpylsa með
jarðarberjakeim og Grafið
grísafile.
Hrafn Magnússon
Ein silfurverðlaun. Púrtvíns
salamí
Björgvin Bjarnason
Tvenn gullverðlaun. Lamba
spægipylsa og Veiðipylsa
Bjarki Freyr Sigurjónsson
Ein bronsverðlaun Chili stubbar
Daníel Ingi Hrafnsson
kjötiðnaðarnemi tók þátt
í sérstakri nemakeppni í
matvælagreinum. Þar var ekki
raðað nema í fyrsta sæti, en
hann stóð sig með miklum
ágætum og fékk að launum
viðurkenningu keppninnar.
Ljóst er að þessi árangur
kjötiðnaðarmanna SS er mjög
athyglisverður og mikill heiður
fyrir fyrirtækið að hafa slíka
fagmenn innanborðs.