Bændablaðið - 16.04.2014, Blaðsíða 46
46 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014
Karlakór Eyjafjarðar setur innan
tíðar upp kórleikinn „Frásögn
úr Frónsskíri“ í Laugaborg,
en áætlað er að sýna verkið
fjórum sinnum í vor. Stjórnandi
kórsins, Petra Björk Pálsdóttir,
samdi verkið en Skúli Gautason
leikari aðstoðar við leikstjórn.
Hljómsveit sem undir leikur er
skipuð þeim Valmari Väljaots á
píanó, Hauki Ingólfssyni á bassa,
Birgi Karlssyni á gítar og Árna
Katli Friðrikssyni á trommur.
„Kórinn syngur bæði gömul lög
og ný og eru leikarar í verkinu
úr röðum kórfélaga, þeir standa
sig með mikilli prýði,“ segir Petra
Björk, en þrjú frumsamin glæný
lög verða flutt á sýningunni.
Kórfélagar í Karlakór Eyjafjarðar
eru ríflega 30 talsins og taka allir
þátt í uppfærslu á kórverkinu. Petra
Björk hefur stjórnað kórnum frá
árinu 2002 og segir að hugmyndin
hafi verið sú að gera eitthvað nýtt og
skemmtilegt nú í vor í stað þess að
halda hefðbundna vortónleika. „Mig
langaði að brydda upp á einhverju
nýju, en verk af þessu tagi hefur
lengi verið að gerjast uppi í höfðinu
á mér, ég hef verið með það í vinnslu
í nokkur ár þar uppi,“ segir hún.
Létt gamanleikrit
Í fyrrasumar settist Petra Björk svo
niður og skrifaði verkið, kynnti það
svo fyrir stjórn á liðnu hausti sem
tók vel í að setja það upp þannig
að hafist var handa við æfingar.
„Við byrjuðum á því að æfa lögin
og eftir áramót var tekið til við að
æfa verkið í heild sinni og það hefur
gengið ljómandi vel, við skemmtum
okkur konunglega á æfingum og
vonum að gestir muni hafa af því
ánægju líka,“ segir hún. „Þetta er létt
gamanleikrit sem gerist á óræðum
en sögulegum tíma.“
Hundurinn á bænum leggur sitt
af mörkum
Kórverkið segir frá óðalsbónda
nokkrum og vel gjafvaxta dóttur
hans, karlinn er orðinn þreyttur á að
hafa hana heima við og lætur berast
út að henni muni fylgja ríkulegur
heimanmundur finnist fyrir hana
rétti maðurinn. Vonbiðlarnir taka
að streyma heim á bæinn en dóttirin
finnur þeim allt til foráttu og vísar
á bug. „Enda eru hún að upplagi
dyntótt frekjudós,“ segir Petra
Björk.
Við sögu koma fjölmargir
kynlegir kvistir, hundurinn á
bænum, sem leggur sitt af mörkum
til að hrekja vonbiðla á brott, alvitur
spegill sem ekki lýgur, þjónustufólk
er að sjálfsögðu á þönum kringum
feðginin og er sölumaður sigins
fisks á sveimi. Petra Björk segir
að verkið sé að hluta til samið með
kórfélaga í huga, líf þeirra og störf,
en sem dæmi er aðaltekjuöflun
kórsins ár hvert sala á signum fiski.
Sögumaður sem stundum villist
út af textanum
Sögumaður er einnig í verkinu, hinn
skorinorði Pétur Pétursson læknir
fer með það hlutverk og skilar því
með sóma að sögn höfundar. „Hann
villist stundum út af textanum ef
sá gállinn er á honum og í raun
veit maður aldrei upp á hverju
hann tekur, en það er allt í góðu
og hann hefur enn sem komið er
ekki farið yfir strikið,“ segir Petra
Björk. Pétur er líka í hlutverki
hvíslara, „ef við hin gleymum
okkur þá er bara að treysta á Pétur,
hann er með textann,“ bætir hún
við, en höfundurinn fer sjálfur með
hlutverk dótturinnar.
Sýningar verða sem fyrr segir
í Laugaborg, frumsýning 2. maí
næstkomandi og þá er sýning
daginn eftir, 3. maí og einnig eru
fyrirhugaðar tvær sýningar helgina
þar á eftir, eða dagana 9. og 11. maí.
/MÞÞ
Karlakór Eyjafjarðar setur upp kórverk eftir stjórnanda sinn:
Skemmtum okkur vel á æfingum og
vonum að gestir hafi jafn gaman af
„Mig langaði að brydda upp á einhverju nýju, en verk af þessu tagi hefur lengi verið að gerjast uppi í höfðinu á mér,“ segir Petra Björk, höfundur kórverksins
og stjórnandi Karlakórs Eyjafjarðar. Mynd / MÞÞ
Hér er einn af vonbiðlunum á ferðinni, Þór Jónsteinsson að segja frá fína húsinu sínu.
Pétur Pétursson fer með hlutverk sögumanns í kórverkinu, en að baki honum
eru félagar í Karlakór Eyjafjarðar.
Skúli Gautason hefur aðstoðað við
uppsetningu kórverksins.
Engilbert Ingvarsson í hlutverki hundsins á bænum reynir að ná athygli
heimasætunnar, en Petra Björk fer með hlutverk hennar.