Bændablaðið - 16.04.2014, Síða 18
18 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014
Sambýli trjáa, sveppa og lúpínu er leið til betri árangurs við landgræðslu:
Getur bætt lifun og vöxt trjáplantna
– sprotafyrirtækið Grænn gróði er með starfsstöð sína í Belgsholti í Melasveit
Í Belgsholti í Melasveit er
sprotafyrirtækið Grænn gróði
með starfsstöð sína. Starfið
gengur út á að þróa einfalda
tækni til að smita trjáplöntur
með svepprótasveppum með það
að markmiði að bæta lifun og vöxt
þeirra.
Sigurbjörn Einarsson jarðvegs-
líffræðingur byrjaði árið 1986 á að
þróa aðferð sem miðaði að því að smita
trjáplöntur með svepparótarsmit. Eftir
margra ára hlé á því starfi tók hann
upp þráðinn að nýju fyrir sex árum í
samvinnu við þá Harald Magnússon
bónda í Belgsholti og Jón Jóel
Einarsson – og stofnuðu þeir fyrirtæki
um þetta verkefni.
„Fyrirtækið hefur verið að þróa
tækjabúnað sem byggir á því að
fjöldaframleiða hnausa sem í er
plantað hefðbundnum bakkaplöntum
og eru þær framræktaðar þeim í tvö
ár. Í hnausana er blandað sveppasmiti
sem sótt er í vaxinn skóg og mynda
plönturnar sambýli við sveppina
í hausunum á þeim tíma,“ segir
Sigurbjörn. „Kveikjan að þessari
aðferð varð í einkaskógrækt minni
á æskuslóðum í Dölunum. Ég hafið
fengið styrk frá Rannsóknaráði árin
1986 til 1990 til að vinna að þróun
hagnýtingar á svepprótarsveppum
í skógarækt en verkefnið dagaði
svo uppi vegna fjárskorts. Ég lauk
verkefninu með því að búa til
fræðslumyndband um efnið og er
það nú aðgengilegt á YouTube undir
heitinu „Stefnumót í náttúrunni“.
Sveppir afar mikilvægir
sambýlingar við tré
„Sveppir eru geysilega mikilvægir
sambýlingar við tré og hjálpa
plöntunni við upptöku á næringu og
vatni,“ útskýrir Sigurbjörn. „Fyrst
um sinn bjó ég til hnausa með fremur
frumstæðum hætti en svo datt ég
niður á skilvirkari aðferð til að búa
til hnausa til að rækta plönturnar í.
Nú notum við gamlan fóðurblandara
frá Haraldi bónda til að blanda saman
lífríkri mold sem samanstendur
meðal annars af sandi, hálmi og
mold – ásamt sveppasmitinu – og
því er pakkað inn í net. Við höfum
verið að þreifa okkur áfram með að
finna heppileg hlutföll af sandi, hálmi
og mold.“
Lúpínan heppileg hjálparplanta
á afmörkuðu svæði
„Hnausunum er svo raðað saman í beð
og plastfilma breidd yfir. Síðan er eins
árs bakkaplöntum stungið í gegnum
plastið í þá miðja og þetta er ræktað
þannig í tvö ár. Í kjölfarið fæddist
sú hugmynd að bæta lúpínunni við
hnausinn og hugsa þá slíkar einingar
til notkunar á slæmum svæðum eins og
á melum og söndum. Það er mörgum
mjög í nöp við lúpínuna, en ef það
er hægt að nota hana í markvissum
tilgangi – á afmörkuðu svæði sem
hjálparplöntu – þá er sjálfsagt að gera
það. Lúpínan tryggir að hnausinn fær
góða rótarfestu á fyrsta vaxtarskeiði
sem fyrirbyggir frostlyftingu. Hún
framleiðir lífrænar leifar sem eykur
næringu og bætir vatnsbúskapinn
umhverfis birkiplöntuna,
framleiðir köfnunarefni og örvar
svepprótarmyndun. Þá ver lúpínan
birkiplöntuna gegn sandfoki. Þegar
birkið vex mun lúpínan sjálfkrafa
hörfa. Við höfum líka notað melgresi
á móti lúpínunni.“
Að sögn Sigurbjörns hefur fyrir-
tækið selt dálítið af plöntum til
sveitarfélaga og landgræðsluverkefna.
Næstu skref hjá fyrirtækinu er að
vélvæða fleiri skref í framleiðsluferlinu
og þróa skilvirka tækni til að planta
hnausunum út. Framleiðnisjóður
landbúnaðarins veitti styrk til
þessa verkefnis um það leyti sem
efnahagshrunið dundi á landinu upp
úr 2008, en sjóðurinn varð í kjölfarið
fjárvana og því skilaði sér ekki allt það
fjármagn sem búið var að úthluta til
fyrirtækisins. Nú vonast aðstandendur
Græns gróða til þess að sjóðurinn láti
af hendi rakna það sem upp á vantar.
Fyrirtækið hefur búið til heimasíðu
(www.grænngroði.is) þar sem frekari
upplýsingar eru aðgengilegar um
starfsemina. /smh
Nethnausum er raðað þétt saman í beð, plast lma er síðan breidd y r hnausana
og síðan er eins árs bakkaplöntum stungið í gegnum plastið í þá miðja.
Sigurbjörn með lífe da birkiplöntu í nethnaus eftir tvö ár í frameldisbeði.
Eldisbeð fjölplöntuhnausa af birki, lúpínu og melgresi.
Haraldur bóndi í Belgsholti og Jón Jóel Einarsson í uppeldisreit birkiplantna.
Jón Jóel og Haraldur við gamla fóðurblandarann sem nú gegnir hlutverki jarðvegsblandara fyrir hnausaframleiðsluna.