Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 22
16
ELSA E. GUÐJÓNSSON
SKÍRNIR
sama. Þótt lítill sé og einfaldur að gerð, er hræll mjög gagnlegt
verkfæri þegar ofið er í vefstað, og raunar ómissandi þegar um
vandaðan vefnað er að ræða. Er notkun hans þríþætt: hann er
hafður til að færa upp að, gefa í, og hræla, og er einkum þýðing-
armikið að hrælingin sé vel af hendi leyst.50
Þar eð vefnaður í vefstað er flestum framandi þykir rétt að
lýsa gangi hans og þar með notkun hræls nokkru nánar. Þegar
ívafið eða fyrirvafið, sem undið er í vindu, hefur verið dregið
gegnum skilið, er hrælnum stungið ofan í uppistöðuna undir
miðju vefaðinu og ívafið dregið niður svo að á því myndast
bugða. Nefnist það að gefa í. Síðan er fyrirvafið fært upp að vef-
aðinu hér og þar með hrælnum. Þessu næst er skipt um skil og
vefurinn hrældur (hrælaður) með því að rispa með hrælnum
nokkrum sinnum þvert yfir uppistöðuna, fyrst frá öðrum jaðri,
síðan frá hinum, rétt neðan við vefaðið. Er þetta gert til þess að
jafna varpið, en þýðingarmikið er að vel sé til þess vandað. Að
lokinni hrælingu er vefurinn barinn eða sleginn, þó aðeins við
annað hvort skil, með sverðlaga vefjarskeið sem oftast er úr hval-
beini en stundum úr viði. Er það gert með því að smeygja skeið-
inni inn í skilið, ekki þó við jaðarinn heldur á miðjunni og slá
fyrst til annarar hliðar en síðan til hinnar út frá miðju, og berja
fjögur högg í hvert skipti. Síðan er dregið í skil á ný, fært upp að,
og þannig áfram.
Þessum og öðrum vinnubrögðum við vefstaðarvefnað er ná-
kvæmlega lýst í tveimur fyrirsögnum frá um 1870 og 1881 sem
varðveittar eru í handritum í Þjóðminjasafni Islands.51 Er í þeirri
fyrri lögð áhersla á að hrælingin sé vel af hendi leyst; að henni
verði „að fara mjög liðlega, því að gæði og prýði vaðmálsins fara
mest eftir því sem það er lipurt og vel gert.“52
Halasnxlda
Sumarið 1980 var uppgraftarmönnum að Stóruborg gjöfult á
góða muni, og þá fannst þar sá hlutur sem ef til vill hefur vakið
mesta eftirtekt með almenningi: halasnælda með útskornum
snældusnúð53 og á honum höfðaletursáletrun með hluta af nafni
eigandans: n n a og orðunum a mig á eftir (10. mynd). Flestir