Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 224
218
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
Kjallarar hafa áður verið notaðir til að tákngera mannlega tilvist. Ég
hef þegar nefnt Tómas Jónsson sem í samnefndri metsölubók varð að
kjallaraíbúð sinni. í fyrri hluta skáldsögunnar Nautnastuldur eftir Rúnar
Helga Vignisson (1990) má segja að kjallarinn, þar sem aðalpersónan Eg-
ill Grímsson býr, renni saman við andiegt ástand hans. I skáldsögu Stein-
ars er hinsvegar gjörvallt verkið undirselt þessu myndvarpi - og þegar
gengið hefur verið inn í mynd kjallarans uppgötvar maður að þetta er
blind bók. Sem „myndverk" er hún því ótrúlega mikil andstæða Svans-
ins. Saga Steinars er gjörrúin öllu „náttúrulegu" umhverfi, nema þegar
það er nefnt sem eitthvað sem er manninum horfið eða yfir hann hafið:
„Kvað ertu á þessum degi og þessum stað? Kvað á við steininn sem
glymur í sólinni? Kvað á við aðfallið? Kvað á við krabba og flær?“ (13).
„Ef til vill dirfðistu ekki að trúa að þú ættir tilkall til þessa ytra heims,
því þú áttir mjög að skylda við kassann eftir samníngum um líf ykkar og
skyldur kvor við hinn“ (19).6 7
Líklega getur enginn texti verið raunverulega blindur, því sjálf notk-
un tungumálsins kallar fram myndir af veruleikanum. Steinar er hinsveg-
ar að reyna hið ómögulega og bók hans er blind að því marki sem hon-
um tekst að birta okkur mynd af engu, af tóminu. Guðbergur kallar fram
kenndir með myndum, mál-verkum; Steinar leitast við að vekja með
okkur kennd án þess að miðla henni í myndum af umhverfi. Þó má segja
að henni sé ætíð miðlað í afbrigði kjallaramyndarinnar, nefnilega því
holrúmi sem kalla má svarthol. „Ég get fundið tóm í kringum mig. Það
er í veggjunum, í gólfinu, í húsgögnunum" (43). Jafnvel tíminn er holur,
eins og fram kemur í lýsingu á „afa“ (sem er þó faðir Davíðs): „Neðri
kjálkinn slapir, munnurinn flírar í þessum hola tíma“ (63). Myndin af afa
fær aldrei skýrar útlínur og það á við um flest önnur fyrirbrigði í textan-
um; hvað eftir annað finnst lesanda hann grípa í tómt, svo notað sé orða-
lag sem sjálft ber þessa þversögn í sér. Einhverskonar holrúm þenst út í
vitund lesanda; hann finnur til ókenndar/ Veruleiki, sem við reiknum
6 Þess má geta að orðræða og viðfangsefni Kjallarans eru að hluta til ættuð úr
prósaljóðabókinni Þú, sem Steinar gaf út sjálfur í 300 eintökum á sínum tíma
(prentuð af Letri 1975). Hún er öll í annarrar persónu „ávarps“-formi.
7 „Ókennd" nota ég í nokkurnveginn þeirri merkingu sem felst í þýska hugtak-
inu „das Unheimliche" (á ensku: „the uncanny"), sem er lykilhugtak í fanta-
síufræðum. Sbr. Sigmund Freud, „Das Unheimliche" (fyrst birt 1919),
Gesammelte Werke XII, Imago Publishing Co., London 1947, bls. 227-268,
og Rosemary Jackson, Fantasy: The Literature of Subversion, Methuen,
London og New York, bls. 63-72. íslenska orðið set ég saman með hliðsjón af
orðunum „óhugur“ og „ógeð“ (sem koma sér einnig bæði vel í þessum fræð-
um, en ná síður yfir þessa holu kennd), en jafnframt útfrá lýsingarorðinu
„ókennilegur“. Það vill svo til að í Kjallaranum er á einum stað talað um að
einhver hvísli „ókennilegum orðum nálægt grafreitum“ (21).