Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 186
180
GUNNAR HARÐARSON
SKÍRNIR
Stjórnskipun lýðveldisins íslands byggist sögulega séð á
stjórnskipun konungsríkisins Islands, en hún fólst í þingbundinni
konungsstjórn. Hún felur í sér tvö óháð öfl, þingið og konung-
inn, sem fara með löggjafarvald og framkvæmdarvald. Hvorugt
getur komið málum í gegn án hins. í lýðveldinu bregður hins
vegar svo við, að forsetinn, eini kjörni fulltrúinn sem sækir um-
boð sitt til þjóðarinnar allrar, er að heita má valdalaus. Vald hins
þjóðkjörna forseta er að mestu leyti í höndum ráðherranna, en
gagnstætt forsetanum sækja þessir handhafar framkvæmdarvalds-
ins ekki umboð sitt til þjóðarinnar, heldur til löggjafarsamkund-
unnar þar sem þeir eiga yfirleitt sjálfir sæti sem fulltrúar tiltek-
inna hópa í ákveðum kjördæmum og fara sem slíkir að hluta til
með löggjafarvaldið.
1 stað stjórnarfyrirkomulags, þar sem tvö öfl deila völdunum á
milli sín, má segja að hafi komið einveldi þingsins. Eitt afl, þingið,
hefur öll völd á sinni hendi og ekki eru nein marktæk skil milli
framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þingið fer með hvort tveggja.
Þetta þýðir að grundvallarhugmyndin um þrískiptingu ríkis-
valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald er óvirk.
Vel mætti segja að meirihluti þingsins fari eiginlega með fram-
kvæmdarvaldið eða að ríkisstjórnin sé í raun handhafi löggjafar-
valdsins. Vald forsetans er svo takmarkað að þingið ræður sér að
mestu leyti sjálft, eða öllu heldur meirihluti þingmanna, án nokk-
urs ytra aðhalds, annars en atkvæðanna, sem eru sótt í kjördæm-
in, og skoðanakannana, sem mismunandi óháðir aðilar standa
fyrir. I þessu sjálfræði þingsins felst það einkenni stjórnskipunar
Islands sem kalla má „þingveldi".
Þingveldið lýsir sér sem „flokkræði" þó að ekki sé þetta
tvennt sami hluturinn. Þingveldið tekur til samþjöppunar ríkis-
valds í þinginu. Flokkræðið stafar af því að saman fara þingveldi
og kosningar eftir flokkslistum. Hver þingmaður á að vera
óbundinn og frjáls í starfi sínu á þinginu. En það eru flokkarnir
sem ákveða hverjir geta verið kjörnir fulltrúar fólksins, ekki fólk-
ið sjálft. Það kýs ekki þingmenn, heldur flokka. Kjördæmakjörnir
þingmenn eru því ekki þingmenn allra í kjördæminu heldur ein-
ungis þingmenn þeirra sem aðhyllast einhvern tiltekinn flokk.
Þingmenn eru fulltrúar flokkanna, ekki fólksins. Flokkarnir