Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 138
132
HULDULJÓÐ
SKÍRNIR
[V]
21.
Hulda! hví grípa hendur þínar ljósu
um hendur mér og hví svo viknar þú?
veit eg þú elur eyrar fagra rósu,
alsett er rauðum blómum Huldubú;
Eggert er þér um ekki neitt að kenna,
annast hefurðu fjallareitinn þenna.
22.
Sjáðu! enn lengra svífur fram um völlu
svásúðleg mynd úr ungum blómareit,
sterkur og frjáls og fríður enn að öllu
Eggert að skoða gengur byggða sveit;
hann fer að sjá, hve lífi nú á láði
lýðurinn uni, sá er mest hann þráði.
23.
Brosir við honum bærinn heillagóði
í brekkukorni, hreinn og grænn og smár;
þar hefir búið frændi hans með fljóði
í flokki ljúfra barna mörg um ár;
þar hefir sveitasælan guðs í friði
og sóminn aukist glöðu bæjarliði.
24.
Þar hefir gjörst að fullum áhrínsorðum
allt sem hinn mikli bóndavinur kvað
um dalalíf í búnaðsbálki forðum,
um bóndalíf, sem fegurst verður það.
Sólfagra mey! nú svífur heim að ranni
sæbúinn líkur ungum ferðamanni.
[VI]
25.
Sólfagra mey! nú seilist yfir tinda
úr svölum austurstraumum roði skær,
nú líður yfir láð úr höllu vinda
léttur og hreinn og þýður morgunblær;
svo var mér, Hulda! návist þín á nóttu
sem nú er ljósið jörð á votri óttu.
26.
Vertu nú sæl! þótt sjónum mínum falin
sértu, ég alla daga minnist þín;
vertu nú sæl! því dagur fyllir dalinn,
dunandi fossinn kallar þig til sín;
hann breiðir fram af bergi hvítan skrúða,
bústaður þinn er svölum drifinn úða.
27.
Vertu nú sæl! því sólin hálsa gyllir
og sjónir mínar hugarmyndin flýr;
ó, Hulda kær! er fjöll og dali fyllir
fjölbreyttu smíði, hvar sem lífið býr
og dauðinn, sem að svo þig löngum kallar
sá er þig aldrei leit um stundir allar.
[VII]
28.
Smali:
(fer að fé og kveður)
„Það var hann Eggert Ólafsson,
ungur og frár og viskusnjall,
stóð hann á hauðri studdur von,
stráunum skýldi vetrarfall;
meðan að sól úr heiði hló,
hjúkraði laukum, eyddi snjó,
kvað hann um fold og fagra mey
fagnaðarljóð er gleymast ei.
29.
Kvað hann um blóma hindarhjal
og hreiðurbúa lætin kvik,
vorglaða hjörð í vænum dal
og vatnareyðar sporðablik;
þó kvað hann mest um bóndabæ
er blessun eflir sí og æ,
af því að hjónin eru þar
öðrum og sér til glaðværðar.
30.
Það var hann Eggert Ólafsson,
allir lofa þann snilldarmann,
ísland hefir ei eignast son,
öflgari stoð né betri’ en hann;
þegar hann sigldi sjóinn á
söknuður vætti marga brá;
nú er hann kominn á lífsins láð
og lifir þar sæll fyrir drottins náð.“