Vestfirska fréttablaðið


Vestfirska fréttablaðið - 20.12.1994, Blaðsíða 19

Vestfirska fréttablaðið - 20.12.1994, Blaðsíða 19
Jjeim og vera þá aðallega við útbreiðslu, semja pésa og því um líkt. Ég svaraði því til að ég væri búinn að ráða mig sem kennara hér í sveitinni. Ekki minnist ég þess að hafa fengið aðkenningu að freistingu í önnur skipti.“ Byrjaði strax sem krakki Guðmundur Ingi kveðst hafa byrjað snemma að yrkja. „Faðir minn hafði ort dálítið á yngri árum, en svo hætt því. Þegar hann veiktist af liðagigt og varð rúmliggjandi fór hann að fást við að yrkja aftur. Hann var stundum að koma okkur systkinunum til, láta okkur botna vísur hvert fyrir annað. Ég byrjaði strax sem krakki að reyna að botna. Eiginlegt kvæði setti ég ekki saman fyrr en á síðasta vetri í barnaskóla, fjórtán ára gamall. Kennarinn var að eggja mig til þess. Þá orti ég kvæði um Bifröst samkvæmt hinni fornu eddukenningu og það var birt í handskrifuðu blaði hérna í sveitinni. Elsta kvæðið í Sóldögum er „Önundarfjörður", ort 1924, þegar ég var sautján ára. Það var hérna félag sem var kallað Bændafé- lagið Vonin, nokkurs konar framfarafélag sem beitti sér fyrir að setja brýr á árnar og þess háttar. Það varð 30 ára þennan vetur og skyldi afmælisins minnst í fornum stfl, flutt minni sveitar, fjarðar og kvenna. Þá báðu þeir mig að yrkja kvæði fyrir minni sveitar- innar. Ur varð þetta kvæði og var það sungið á samkomunni, við gamalt lag auðvitað.“ Síðan hefur umrætt kvæði orðið nokkurs konar þjóðsöngur Önfirðinga. Brynjólfur Árnason, nágranni Guðmundar Inga, setti lag við það og það er sungið að minnsta kosti einu sinni á hverju þorrablóti sem haldið er í þeirri „hamrahöll" sem Önundarfjörður er. Ekki nóg með það, heldur hefur Guðmundur Ingi samið nýtt kvæði til flutnings á hverju þorrablóti og hyggst halda þeim sið. Nokkurra daga undirbúningur „lá, það er oftast nokkurra daga undirbúningur", segir Guð- mundur Ingi þegar hann er spurður um aðdragandann að ljóðum sínum. „Ég eref til vill búinn að fáeina setningu og bragarháttinn. Svo eftir nokkra daga kemur rennsli og stundum þarf ég þá lítið fyrir því að hafa. Þó kemur fyrir að ég hreinskrifa, það er dálítið misjafnt." Guðmundur Ingi lifði daga atómljóðsins, en varð aldrei ginn- keyptur fyrir að sleppa bragarháttum. „Einstök ljóð eru órímuð hjá mér“, segir hann, „en samt eru stuðlar þó að ekki sé endarím. Þar má helst nefna ljóðið „Andvaranaut“,“ segir Guðmundur og kveðst ekki telja fornyrðislag sem atómljóð, en því beitir hann nokkuð. Annað ljóð sem ekki er ort undir hefðbundnum bragarháttum þótt finna megi í þvf stuðla er Ijóðið „Stigið á Island" en því hefur mikið verið hampað og það ekki að ástæðulausu, við birtum það hér með viðtalinu (sjá forsíðu). Kvæðið var ort þegar Guðmundur var að koma heim úr miklu ferðalagi til Austurlanda, en ljóða- bókin Sólborgir varð m.a. afrakstur þess. „Við vorum að koma frá Glasgow og það var heldur hryss- ingslegt veður. Það er sama helvítið að koma hér, segir þá einn farþeginn. Þá fékk ég þennan tón.“ Guðmundur Ingi fylgist vel með því sem gefið er út af ljóðum nú til dags og er félagi í ljóðaklúbbi Máls og menningar. „Ég les stöku sinnum nútímaljóð til að vita hvort ég skilji þau. Það er ekkert samhengi í þessu, enda segja þeir nú að Ijóð eigi ekki að skiljast heldur vera“, segir skáldið og virðist ekki fullsátt við þróun mála. Áhrif frá Dana, Svía og Davíð Guðmundur Ingi nefnir tvö erlend ljóðskáld sem hann hafi fundið samhljóm með strax um tvítugt. Annað var danskt, Jeppe Aakjær að nafni, og orti einnig mikið um sveitina. „Eg varð fyrir áhrifum af honum, ósjálfrátt", segir Guðmundur. „Það var þessi sami andi í ljóðunum hans. Ég hef reynt að þýða þau en ekki tekist nógu vel upp til að birta þær þýðingar.“ Aftur á móti hefur hann hyllt Aakjær í sínu eigin ljóði og kveður þar m.a.: „Þú ert, Aakjær, alltaf skáldið mitt, / ilmur jarðar kringum nafnið þitt.“ „í Sóldögum gefur að líta kveðskap skálds sem hlýddi ekki alltaf kalli tímans en þorði að vera hann sjálfur. Ekki verður bent á annað skáld íslenskt frá þessari öld sem lifað hafi sáttara við umhverfi sitt.“ Erlendur Jónsson í Morgunblaðinu 18.11.1993 „Svo var annar f Svíþjóð sem hét Erik Axel Karlfeldt. Þessir tveir snertu mig eitthvað meira en aðrir. En ég las allt það sem til var á heimilinu, svo sem Matthías Jochumsson, Þorstein Erlings- son og Grím Thomsen. Móðir mín hafði bók Steingríms Þor- steinssonar alltaf við koddann. Hjá lestrarfélaginu komst ég svo í Stephan G. og las hann mikið. Fyrst eftir að ég byrjaði að yrkja var ég þó undir áhrifum frá Davíð Stefánssyni. Flestir sem komu fram á árunum 1930-40 hafa gengið frá Davíð í byrjun, vaxið frá hon- um.“ Guðmundur Ingi segist vera ánægður með að sér hafi tekist „að koma ásetningi undir flest kvæðin", eins og hann orðar það. Undir sakleysislegu kvæði um músarrindil, svo dæmi sé tekið, býr þannig byggðastefna sálarinnar. Önnur geyma samræðu við algild lögmál og umheiminn, benda má á hið stórgóða kvæði frá 1947, „Sagan um Jóhann Fást“: „fyrir kræsingar, munuð og silki hann seldi / sjálfan sig heimsins stærsta veldi“, stendur þar. Varnaðarorð í tíma töluð. Vantaði svolítið í mig Guðmundur Ingi hefur ekki aðeins verið bóndi og ljóðskáld. Hann var farkennari og síðar skólastjóri í Holti í ein nítján ár eftir að heimavistarskólinn var settur á laggirnar. Þá starfaði hann mikið fyrir ungmennafélagshreyfinguna. „Það fór vel saman í gamla daga að yrkja með bústörfunum. Maður gat sest niður milli gjafa og fengið í 2-3 vísur.“ Um kennarastarf sitt segir hann: „Það vantaði alltaf svolítið í mi£. Ég var svotil eini kennarinn og varð að kenna eiginlega allt. Ég var hins vegar aldrei mikill handavinnumaður og sönglaus var ég. Og ekki var ég mikill teiknari heldur. Það vildi mér til happs að ég hafði góðar hand- bækur að styðjast við, til dæmis í fimleikum." Þess má geta að miklu fleira fólk var í sveitinni í þá daga. Guðmundur segir að þegar hreppnum var skipt árið 1922 hafi verið um 300 manns í sveitinni og önnur 300 úti á Flateyri. Hann við- urkennir að tregi sæki að sér þegar hann hugsi til þessara þjóðfé- lagsbreytinga, enda má sjá það í sumum nýrri ljóða hans. I kvæð- inu „Snæfjallaströnd" er til dæmis þessi gullvæga lína: „Fámennið amar að“. En Guðmundur Ingi er ekki á faraldsfæti og segist ekki hafa á- kveðið neitt annað en að verja sínum síðustu ævidögum undir Kaldbaksins kinn, enda svarar hann þegar hann er inntur eftir því hvort hann sé samvaxinn sveitinni: „Ég vildi vona það. Ég hef alltaf verið sérstaklega sáttur við umhverfið. Þótt ég sé ekki mikill náttúrufræðingur þá hef ég gaman af gróðri og dýrum.“ Mikið sólskin í þínum kvæðum Heildarljóðasafn Guðmundar Inga kom út hjá Hörpuútgáfunni í fyrra undir nafninu Sóldagar. Þar er um vandaða útgáfu að ræða og sérlega smekklega. Þar með hafa allar Ijóðabækur Guðmundar sólina í forsæti: Sólstafir (1938), Sólbráð (1945), Sóldögg (1958), Sólborgir (1963) og Sólfar (1981). „Ég fór einu sinni á vegum ungmennafélagsins til Súðavíkur, en þá var títt að þau skiptust á að vera með erindi hvert hjá öðru. Ég las kvæði. Svo er ég heima hjá skólastjórahjónunum á eftir. Þá segir skólastjórinn, Rósa B. Blöndals: Það er mikið sólskin í þínum kvæðum. Þá datt mér í hug að nota einhverja samsetningu með sól í titilinn. Þegar kom að næstu bók kom ýmislegt til tals annað en að halda áfram með sól, en þó varð það ofan á og sfðan hefur ekki annað komið til greina,“ segir Guðmundur Ingi um þessa óvenju- legu titlaröð. Sóldögum fylgir viðauki með úrvali af nýjustu kvæðum skáldsins. Helgi Sæmundsson hafði umsjón með útgáfunni og segir m.a. í eftirmála: „Sóldagar bera því órækt vitni að Guð- mundur Ingi sé í hópi listfengustu og sérstæðustu skálda okkar á þessari öld. Og ljóðin fimmtán í viðauka bókarinnar, svo og inn- gangskvæði safnsins, ættu að sæta tíðindum. Þar yrkir hálfníræður maður eins og miðaldra væri.“ Þrátt fyrir lofsyrði Helga lýkur bókinni á þessu hógværa er- indi: Horfinn ert þú, og hverfa munu fleiri. Hrósyrða margra bíður gleymskan ein. Vestfirðing eftir öld í sýn ég heyri, örtölvuþjón og gervihnattasvein. Lítur hann inn á Ijóðadeild í safni, les þar í hljóði fölnað titilblað, glöggvar sig ei á gömlu, týndu nafni. „Guðmundur lngi“, spyr hann, „hver var það?“ Eigi má sköpum renna og kannski skiptir engu í eilífðinni hversu endingargóður orðstir hvers og eins verður. Hitt má ef til vill mestu varða hversu mikla fyllingu skáldskapurinn veitir í líf- inu sjálfu. „Ljóðið hefur verið stór hluti af lífi mínu. Stundum hefur það gengið fyrir öðru — því sem hægt var að setja til hliðar. Ef ég væri ungur núna þætti mér lfklegt að ég hefði gaman af að leika mér að orðum,“ segir Guðmundur Ingi með blik í augum svo lífskvikan leynir sér ekki með þessum roskna manni þar sem ég skil við hann á hlaðinu fyrir framan húsið sem hann byggði ásamt Halldóri bróður sínum. Þarna stendur hann föstum fótum á aðalyrkisefni sínu, horfir út yfir það um leið. Hér hefur rödd hans hljómað ára- tugum saman, hann hefur ort „hræðum þeim sem eftir eru“ sín „kotungsljóð“, því „ríkust er í raun og veru / röddin hans á bernskuslóð“. Hugleiðum það. Rúnar Helgi Vignisson

x

Vestfirska fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirska fréttablaðið
https://timarit.is/publication/1149

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.