Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Síða 107
hann var kallaður til konu í barnsnauð. Bóndi hennar vildi nota ferðina
og lét draga úr sér tönn á meðan konan var með kollhríðirnar. Lækninum
sagðist svo frá að konan hefði ekki brugðið svip og frá henni heyrðist ekki
minnsta stuna, en þegar karlinn æpti þá lék henni um varir dauft bros.
Þegar Hallgrímur Pétursson yrkir um passíuna um píslargönguna þá
stendur hann sjálfur „álengdar fjær“.4 Hann horfir af þeim sjónarhóli á þján-
ingu Frelsarans því nær getur hann ekki komist. Þessi afstaða er forsenda alls
skilnings. I stað þess að álykta út frá sjálfum sér um líðan annarra er leitast
við að hlusta og skynja og stíga þar með skrefinu nær. Samlíðun með Kristi
og imitatio byggir á þeirri trúarvitund að Mannssonurinn skilji okkur betur
en við skiljum okkur sjálf. Þegar Hallgrímur glímir sjálfur við margvíslegar
sorgir, ástvinamissi og heilsutjón, þá horfir hann til harmkvælamannsins,
sem spádómsorðið lýsir svo: „Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss
gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. Hann var fyrirlit-
inn og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum,
líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann
einskis. En vorar þjáningar voru það, sem hann bar og vor harmkvæli er
hann á sig lagði“ (Jes 53:2-4 ).
Agætur læknir vakti athygli mína á því að kannski litum við um of
framhjá þessu. Þjáður maður er hluttakandi í þjáningum Krists og jafn-
framt er hann hluttakandi í sigri hans yfir sorg og þjáningu og dauða. Þetta
var skilningur Hallgríms og þetta var skilningur Páls sem segir á einum
stað: „Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig
hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist“ (2Kor 1:5). Erum við
þá með því að taka í burtu þjáninguna að ræna þessari 'imitatio frá mann-
inum? Eg læt þeirri spurningu ósvarað en mun síðar víkja betur að því, sem
ég nefni nauðsynlegan sársauka. Eg veit ekki frekar en aðrir hversu margir
íslendingar líta á þjáninguna sem beina þroskaleið, hvað þá refsingu eða
miskunnarlausa „vitleysu“ svo eitthvað sé nefnt.
Því verður ekki á móti mælt að eitt stærsta stefið í boðskap kristindóms-
ins er boðskapur föstunnar. Á píslargöngunni bætir Kristur úr böli margra,
hann reynir ekki að skýra þjáninguna eins og kemur svo vel fram, þegar
4 Hallgrímur Pétursson, Passíusálmarnir, 1998, 11. sálmur 3. vers
105