Skagfirðingabók - 01.01.1988, Qupperneq 17
STEINGRÍMUR Á SILFRASTÖÐUM
og mjókkar, þegar ofar dregur. Svo vel vildi til, að Stein-
grímur var ekki kominn of langt upp, því snjóflóðið klofn-
aði rétt framan við hann og féll áfram niður báðum megin
við Hrygginn. Eftir þetta hafði Steingrímur þann hátt á að
fara yfir gilið á Miðstig, sem er gönguleið nokkru neðar, ef
honum sýndist snjóflóðahætt hið efra.
Oðru sinni, þegar Steingrímur var á Selinu við gegningar,
kemur til hans kona ein, og vill fá að verða samferða honum
fram yfir gilið. Steingrímur tók konunni fálega, taldi, að
hann hefði trafala af henni. Er hann hafði lokið gegningum,
tekur hann sprettinn suður á Vegmel, en konan fylgir fast á
eftir. Bæði voru með broddstaf. Hleypur nú Steingrímur
allt suður í Gjána, sem er sunnan við Vegmelinn, en þar var
óslitinn hjarnskafl niður að ánni. Sezt hann klofvega á staf-
inn og rennir sér alla leið niður. Þetta var þekkt aðferð, og
var þá ferðinni haldið í skefjum með því að rispa hjarnið
með broddinum. Konan hefur sama háttinn á og er komin
fast á hæla honum niður. Tekur Steingrímur nú sprettinn
upp frá ánni og slakar ekki á fyrr en upp við Klett og tyllir
sér þar niður. Ekki var hann fyrr seztur en konan er þar
komin og spyr, hvort hann ætli ekki að halda áfram. Varð
hann þá að viðurkenna, að hún yrði honum ekki til tafar og
gerði ekki frekari tilraunir til að ganga hana af sér. Var þó
talið sjaldgæft, að Steingrímur fyndi jafnoka sinn á þessu
sviði.
Kona þessi hét Sigríður Hallgrímsdóttir og var raunar
fræg fyrir, hvað henni var létt um gang. Hún var kona Frið-
riks Sveinssonar. Bjuggu þau mestallan sinn búskap á Norð-
urárdal, lengst á Fremri-Kotum. Eitt sinn brá Sigríður sér,
ásamt öðru fólki af Norðurárdal, til kirkju heim að Hólum
og fóru að fjallabaki, eins og kallað var, þ.e. um Horn og
Suðurárdal. Náðu þau messu og komu heim samdægurs.
Sagt er, að á þessum Stigaselsárum hafi Steingrímur kom-
ið sér hjá að greiða sóknargjöld. Þegar innheimt var í Silfra-
15