Skagfirðingabók - 01.01.1988, Page 36
SKAGFIRÐINGABÓK
Jóhanna og Jóhannes eignuðust stúlku árið 1917. Var hún
skírð Kristín eftir ömmu sinni. Kristín var mesta efnisbarn,
en varð skammlíf. Hún lézt árið 1920. Það sama ár eignuð-
ust þau hjónin annað barn, sem einnig var stúlka og látin
heita Kristín. Kristín yngri var fáviti.
Nú var skammt stórra högga milli í fjölskyldunni. I árs-
byrjun 1927 lézt Jóhanna húsfreyja eftir langvarandi veik-
indi, aðeins 38 ára. Var banamein hennar berklar. Nú líða
tvö ár og verður þá enn eitt dauðsfallið, Kristín litla lézt. Þá
varð afanum að orði, að sagt er: „Hún mátti nú fara, fyrst
hin gat ekki lifað.“ Smátt og smátt þjarmaði elli kerling að
Steingrími, og síðustu þrjú eða fjögur árin hafði hann litla
sem enga fótaferð. Hann lézt 12. ágúst 1935.
Steingrímur var maður stórvaxinn, nokkuð útlimalangur
og því af sumum talinn illa limaður. Röddin var há og
nokkuð mjó eða skræk stundum. Hann talaði með sér-
kennilegum áherzlum, svo að betur var eftir tekið því sem
hann sagði. Þá var orðaröð hans oft sérkennileg, svo sem:
„Mér þykir það bölvað æði.“' Einnig notaði hann mikið
lýsingarorðið „lumpinn" um það sem honum líkaði illa.
Steingrímur var mannblendinn og gestrisinn. Voru Silfra-
staðir viðkomu- og gististaður fjölda ferðamanna, m.a. gisti
pósturinn jafnan þar á búskaparárum Steingríms. Símon
Dalaskáld víkur að gestgjafahlutverki Steingríms í eftirfar-
andi vísu:
Silfrastöðum Steingrímur
stýrir, borinn Jóni.
A þjóðtröðum öflugur,
örvahöðum þarflegur.
1 Aldís Guðnadóttir á Gilsbakka sagði, að Steingrímur „talaði á eftir
sér“. Guðmundur á Egilsá segist hafa heyrt þetta kallað að „tala eftir
sig“-
34