Skagfirðingabók - 01.01.1988, Síða 38
SKAGFIRÐINGABÓK
Steingrímur varð aldrei ríkur af peningum. Hann tók oft
lán, stór og smá, og átti stundum fullt í fangi með að standa
í skilum, sem var honum þó ríkt í sinni. Ekki mun hann
hafa verið harðdrægur í viðskiptum, og hjúasæll var hann.
Hann gat hins vegar verið harður í horn að taka, ef honum
fannst hann órétti beittur, jafnvel þótt í smáu væri. Þeir sem
muna Steingrím, eiga um hann góðar minningar.
Sagnir um Steingrím og tilsvör hans
ÞÓ AÐ Steingrímur væri barn síns tíma, fór hann aldrei
troðnar slóðir nema að hluta til. Hann var ákaflega hispurs-
laus í tali og löngu frægur fyrir ýmis tilsvör sín og orðatil-
tæki. Eitt höfuðeinkenni hans var að bera enga virðingu
fyrir embættismönnum. Urðu þeir samt góðir vinir hans
sumir.
Margar sagnir eru af Steingrími á prenti, og verða þær
ekki endursagðar hér, utan nokkur sýnishorn, og fáeinar,
sem líklega hafa ekki verið skráðar til þessa.1
Gott dæmi um virðingarleysi Steingríms við höfðingja
var, þegar Hallgrímur biskup Sveinsson vísiteraði Silfrastaði
árið 1900. Steingrímur þéraði engan og var þar á undan sam-
tíð sinni. Biskup heilsaði virðulega og kynnti sig. „Nú, ert
þetta þú?“ svaraði Steingrímur, kallaði síðan á vinnumann
sinn og biður hann að sækja Drullukollu, „ég ætla að slátra
henni handa biskupinum.“ Þorskhausakippa var í forkirkj-
unni á lítt áberandi stað. Þó hafði Steingrímur talið rétt að
fjarlægja hausana, áður en biskup kæmi, en annar maður átti
1 Víða er minnzt á Steingrím á Silfrastöðum, en þeir sem ítarlegast hafa
frá honum sagt eru Ólína Jónasdóttir í Skagfirðingabók 5 og í bókinni
Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna, Rvík 1981; Stefán Vagnsson í bók-
inni Úrfórum Stefáns Vagnssonar, Rvík 1976; Sigríður Björnsdóttir frá
Miklabæ í bók sinni I Ijósi minninganna, Rvík 1962.
36