Skagfirðingabók - 01.01.1988, Side 51
HÁKARLAVEIÐI OG VETRARLEGUR
Á vorvertíð 1887
VORIÐ EFTIR var ég ráðinn á Fljótavíking, sem var dekk-
skip, og haldið út frá Siglufirði. Eigendur hans voru Sveinn
Sveinsson í Haganesi og Jóhannes Finnbogason á Heiði í
Sléttuhlíð.
Við vorum tólf á skipinu. Fórum fyrst í apríl til Siglu-
fjarðar til að setja skipið fram og útbúa það til veiða. Sigld-
um svo út hinn 14. apríl, sem var hinn ákveðni útsiglingar-
dagur hákarlaskipa.1 Var nú siglt í hægum vindi fram á
Skagagrunn, þar lagzt við stjóra, öllum vöðum rennt og
strax nægur hákarl. Þarna var legið í tvo og hálfan sólar-
hring, síðan siglt upp á Siglufjörð með 82 tunnur lifrar og
mestallan hákarlinn. Voru menn ánægðir og glaðir yfir
veiðiförinni.
Mikið fannst mér til um að vera kominn á þilskip, og
mikill munur að standa á sléttu þilfari í glímunni við þann
gráa eða vera hálfboginn í árabát.
Þegar búið var að losa skipið og taka sem þurfti til næstu
farar, var siglt út og fram á Strandagrunn, langt norðaustur
af Hornbjargi; þar var lagzt, öllum vöðum rennt, en hákarl
dræmur. Eftir nokkurn tíma tók alveg fyrir veiði. Skipaði
1 Það mun hafa orðið eins konar hefð, að þilskip væru ekki að veiðum
yfir veturinn, frá 1. nóvember til 14. apríl. Var tekið mið af samþykkt
frá 14. desember 1877 um veiðar á opnum bátum. A alþingi 1883 var
reynt að binda þessa hefð í lög, því: „þó skip þessi fari venjulega ekki
út fyr en í miðjum apríl, þá eru þó einstakir menn, sem láta skip sín
fara fyr út“ (Einar Ásmundsson). Áttu lög þessi að ná yfir hákarlamið
fyrir Norðurlandi. Frumvarpið var svæft. Það var vakið upp á næsta
þingi, 1885, en nú í breyttri mynd: Um bann við niðurskurði hákarls
fyrir 14. apríl á svæðinu frá Gjögurtá [á Ströndum] að Skaga. I þeim
búningi var það samþykkt.
49