Skagfirðingabók - 01.01.1988, Qupperneq 151
EINAR í FLATATUNGU OG FRIÐFINNUR Á EGILSÁ
fús var hann, að allt gat dottið í dúnalogn nær því eins og
hendi væri veifað. Og þrátt fyrir þvílíka sviptivinda hugar-
farsins, gat hann svo að segja að bragði setzt að kaffiborði
með sama viðmælanda og rætt þá af vinsemd um allt önnur
málefni. Eg held hann hafi aldrei látið sólina setjast yfir reiði
sinni.
Einar var duglegur maður og gekk á sumrum til vinnu
með fólki sínu, enda hjúasæll. Var flestum vel til Einars
sökum drengskapar og mannkosta, þó lundin væri stór og
svipvindasöm. Hann var sparsamur og ákaflega gætinn í
fjármálum, neytti nær aldrei áfengis, og ef nokkuð var, þá
ævinlega mjög í hófi. Enginn var hann framkvæmdamaður,
fremur forn í skapi og heldur íhaldssamur. Flesta nýbreytni
lét hann sér fátt um finnast. I þessu voru þeir næsta líkir
hann og faðir minn. Báðir voru þeir þó nokkuð ánægðir
með allmarga nýbreytni, þegar hún var komin á. Þannig
man ég, að eftir að pabbi eignaðist hestakerru var eins og
hann skildi naumast, hvernig hægt hefði verið að komast af
öll þessi ár án slíks tækis.
Einar var hjálpsamur, ákaflega góður nágranni og barn-
góður. Man ég vel, hvernig hann tók mér ævinlega, þegar ég
kom í Tungu, lítill og feiminn sveinstauli. Jafnan heilsaði
hann mér með eftirfarandi orðum: „Ja, komdu nú blessaður
og sæll.“ Um leið fór allt andlitið á hreyfingu, dansaði bein-
línis í góðlátlegu brosi. Svo þegar ég hafði rutt úr mér þessu
vanalega: „Pabbi og mamma báðu kærlega að heilsa“ og
Einar svarað: „Guð blessi þau“, þá fór hann að spurja mig
frétta og tala við mig eins og jafningja, þótt annað veifið
sæist hlátur í dansi andlitsins. Svo sem kunnugt er, vilja
börn láta taka mark á sér, enda varð þetta, ásamt fleiru, til
þess að mér varð reglulega hlýtt til Einars. Hann er einn
þeirra manna, sem ég kynntist í bernsku og hugsa ávallt til
með virðingu og hlýhug.
Einar var bókelskur, átti nokkurt bókasafn og las mikið.
149