Skagfirðingabók - 01.01.1988, Qupperneq 158
SKAGFIRÐINGABÓK
Þegar Jón kom til baka, varð ljóst, að hann hafði samið
við Pétur Pétursson kaupmann, og skyldi öll ullin lögð þar
inn. Strax sagðist Hjörleifur hafa séð, að pabbi var ekki
ánægður með þetta, sagði þó ekkert, enda ekki venja hans
að vera margorður um það, sem ekki varð breytt.
Nú leið af nóttin, og hófst móttaka ullarinnar snemma
morguns, enda man ég, að stundum rifu bændur utanbúðar-
menn upp fyrir venjulegan opnunartíma. En ekki held ég
það hafi verið vinsælt. En víst er, að bændur bölvuðu kaup-
mönnum og starfsliði þeirra fyrir það hve seint þeir kæmust
úr bólinu. Frá bernsku man ég vel, að bændur voru búnir að
standa drjúglengi á torginu fyrir framan Kristjánsbúð á
Króknum, horfa upp í litaðar rúður útidyrahurðar og láta
ómjúk orð falla um drollið í andskotans kaupmanninum.
Til að mýkja skap bænda áttu kaupmenn það til að bjóða
inn upp á kaffi og fínt meðlæti, þegar komið var á fætur. En
víst er, að ekki voru það nema efnaðri bændur, sem áttu því
láni að fagna að drekka kaffi og borða með kaupmannsfjöl-
skyldunni. Auðvitað urðu kaupmenn að sýna höfðingsskap
og lipurð til að missa ekki viðskiptin.
Jón á Rauðalæk varð fyrstur með sína ull, og gekk það
allt tíðindalaust. Næstur var pabbi, og kom þá babb í bát-
inn. Vigtarmenn töldu ullina ekki vel þurra og sögðust taka
yfirvigt. Svo hagaði til, að ullarmóttakan fór fram á pakk-
húslofti, og var gat á loftinu, þar sem ullarballinn hékk í
böndum, en það var afar stór strigapoki og endanlegar um-
búðir til útflutnings. Þegar búið var að vigta ull bóndans og
skoða, var henni rutt niður í þennan poka, en í hann var
oftast eða ætíð troðið með fótunum. Hjörleifur var þarna
nærstaddur og segir, að vigtarmenn hafi verið talsverða
stund að skoða ullina og melta þetta með sér, þar til þeir
úrskurðuðu yfirvigt. Meðan því fór fram, stóð Friðfinnur
við súlur tvær, sem náðu upp í loft, hélt hann sinni hendi
um hvora súlu og sagði ekki orð. En strax og dómurinn var
156