Skagfirðingabók - 01.01.1988, Síða 178
SKAGFIRÐINGABÓK
Kom það oftast í minn hlut eins og sjálfsagt var. Eg þurfti
að læra að beita árinni, og svo var ég lélegasti fiskimaðurinn.
Oftast var létt að andæfa. Hafgola gat að vísu orðið nokkur
og einnig kul af landi, en straumar litlir.
Þegar komið var að landi, var aflinn látinn á börur og
borinn heim að búð. Þá var báturinn settur svo hátt upp í
kambinn, að hann yrði óhultur á háflæði, skorður settar
undir, tvær til þrjár hvorum megin, og kaðall úr stefni festur
upp á kamb. Til að létta setningu bátsins var sama aðferð
notuð og við framsetningu, smáfjölum skotið undir kjölinn
svo að hvergi tók niður í möl. Þegar búið var að ganga frá
bátnum, fengum við okkur fljótlega hressingu, enda orðnir
matlystugir. Nesti höfðum við aldrei með á sjóinn.
Bogi skipti aflanum í fjóra hluti. Þá var varpað hlutkesti
um hluti okkar Jakobs, en Bogi hafði hina tvo, enda lagði
hann til bát, veiðarfæri og húspláss. Þá var gert að, slægt og
hausað. Hausarnir voru hirtir og hertir, en fiskurinn ýmist
saltaður eða hengdur upp. Meira fór þó í salt, því maðktími
fór í hönd. Lagði Bogi til saltið.
Stundum, en ekki alltaf, sendi Bogi mig með fisk heim að
Hraunum og valdi þá oftast vænsta þorskinn. Þann kallaði
Bogi lóðarfisk. Mér skildist, að þetta væri tollur til Hrauna-
bænda fyrir uppsátur og aðstöðu í landi og hefði þetta verið
regla um aldir, þar sem útgerð var stunduð; er augljóst, að
landeigendur útgerðarstaða hafa margan fiskinn fengið án
fyrirhafnar.
Eftir viku kom móðir mín að sækja aflann og færa mér
mat til seinni vikunnar. Jakob fór heim um helgina. Var ég
þá eini hásetinn hjá Boga. Frá þeim dögum er ekkert sér-
stakt að segja umfram það, sem áður er áminnzt.
Vorið 1921 var ég svo viku hjá Boga. Annar háseti var
Sigurður Gunnlaugsson, sem þá var í þurrabúð í Hrúthús-
um ásamt konu sinni, Sigurbjörgu Guðnadóttur frá Heiði í
Sléttuhlíð. Hún hafði áður átt Martein Aðalsteinsson, og
176