Skagfirðingabók - 01.01.1988, Page 181
SUMARDVOL I SVEIT 1930-1932
eftir ÞORBJÖRN KRISTINSSON
Höfundur þessa þáttar, Þorbjörn Kristinsson, er fæddur að Mið-
sitju í Blönduhlíð 17. desember 1921, sonur hjónanna Aldísar
Sveinsdóttur og Kristins Jóhannssonar. Vorið 1923 fluttust þau að
Hjaltastöðum og voru þar til 1930, er þau brugðu búi og fluttust til
Sauðárkróks. Var þá höfundur átta ára gamall.
Hj. P.
FYRSTA sumarið mitt á Króknum var tekin sú ákvörðun að
senda mig í sveit til reynslu um óákveðinn tíma. Var það að
Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi, ekki langt í burtu. Eg fór
frameftir í bíl með Jóni bónda Jónssyni. Var hann með allra
stærstu mönnum og eftir því sterkur. Fólkið á bænum var
ekki margt, þó man ég eftir litlum snáða, sem hét Jón Haf-
steinn. Auk þess var þar vinnukona og svo hjónin. Þarna
var því ekki um neina leikfélaga að ræða, enda undi ég hag
mínum illa og grét mikið. Að síðustu stóðst ég ekki þá
freistingu að taka til fótanna og strjúka heim til mömmu.
Kom sér nú vel, að ég var léttur á fæti, og fór ég nokkuð
utan vegar til að vera síður gripinn á flóttanum. Þetta mun
hafa verið 10-12 km vegalengd. Auðvitað óttaðist ég mest
eftirför Jóns bónda og flengingu, ef hann næði mér, en slíka
meðhöndlun hafði ég aldrei fengið; foreldrar mínir börðu
ekki börnin sín. Þegar ég átti skammt ófarið til þorpsins, sá
ég ríðandi mann á ferð eftir veginum. Einhvern veginn fann
ég á mér, að þetta mundi vera Jón og faldi mig milli þúfna,
179