Feykir


Feykir - 18.12.1991, Blaðsíða 10

Feykir - 18.12.1991, Blaðsíða 10
10 FEYKIR 45/1991 Inn milli fjallanna í seiöandi kyrrðinni segir af fjallaveislu Hannesar P. og Kára Jóns í bókinni Eintöl á vegferðum Ungir menn á Sauðárkróki: Hannes Pétursson og Kári Jónsson. Mynd: Kristján C. Magnússon. Xjaugardagur og mjólk- uibílamar famir úr Króknum, búið að loka öllum verslun- um og göturnar eyðilegar í skærri birtu. Við Kári stöndum klifjaðir framan við pósthúsið, þar sem ég átti heima þegar þetta var, og stór bakpoki að springa utan af matföngum. Við höfðum keypt nesti hjá Haraldi Júl. samkvæmt minnislista sem verið hafði lengi í smíðum, því vandað var til hans. Við ætluðum að kanna fáfarna stigu og halda um leið veislu uppi í fjöllum, uppi í Víðidal í Staðarfjöllum. Móðir mín kemur fram í dyrnar og spyr, hvort við höfum nú allt meðferðis sem við þurfum, hvort hún eigi ekki að skjótast inn eftir einni ávaxtadós. „Nú þið getið þá komið með hana aftur, verði ekki not fyrir hana”. Við þykjumst yfir þessa dós hafnir, segjumst vera svo birgir að tæplega sé hægt að stinga henni niður nokkurs staðar. A endanum látum við samt undan fyrir þrábeiðni. Við sígum af stað upp Kristjánsklauf, fram hjá húsunum þar sem við þekkjum hverja útihurð, síðan fram hjá gripahúsun- um efst í klaufinni. Þar byrjar sveitin, heillandi en þó gamalkunn. Og þegar við komura upp á Nafir, blasa við mestu sauðafjöll í heimi, grösug, bunguvaxin, snjó- þung, þar sem „drífa stíf / dynur á svöngum hjörðum” á veturna, en samt: hvar í veröldinni er til fjallabyggð sem kemst nær en Göngu- skörð innstu hugmynd manns um kostarík sauðlönd? Fólk neðan úr Krók er að heyja á túnum sínum, og töðuilminum slærfyrirþegar við göngum upp að Hlíðar- enda. Það er með naumindum að við tímum að líta við til þess að eiga það eftir þegar hærra dregur. Við gerum það samt uppi í fyrstu brekkunum, því fjöllin og eyjarnar biðja okkur að fylgjast með því, hvernig sjónarhólarnir breyta þeim smátt og smátt. Drangey og Málmey eru farnar að sigla hvor burt frá annarri. Það kemur ekki lengur á óvart, en hvílík furða þótti mér að sjá Málmey stefna til hafs í fyrsta skipti. Hvarætlaði hún að nema staðar? Við leggjum frá okkur klyfjarnar, setjumst niður og hvílum okkur hátt uppi í Skógarhlíð. Hrís, lyng og sólskinshiti upp úr jörðinni. Og framundan Skagafjörður, víður og blár, hreinn í sniðum. Hver sveit talaði sinni eigin rödd, sem dró dám af landslagi hennar, fólki og sögu. Sumar höfðu djúpan, aðrar bjartan róm, og sumar stóðu hjarta manns nær en aðrar, en þær vöktu allar til samans þá skynjun, að þarna ætti maður heima, að til væri staður á jörðinni þar sem maður ætti heima á hverju sem gengi, hvert sem leiðirnar lægju, eilífur staður í brjósti manns. Okkur þótti hlíðin djúp uppgöngu og Molduxi hátt fjall, ef dæma má eftir sporunum sem við stigum. Nú stefnum við upp á skarðið sunnan hans, Molduxaskarð... Hvenær gleymum við Kári því? Skyndilega tekur fyrir blæinn utan af firði, sólin skín heit í dúnalogni, það glittir í spegiltæra tjörn í grænni lág, byggðahringur Skagafjarðar horfinn, við erum komnir inn milli fjallanna, inn í seiðandi kyrrð. "Við hægðum ganginn sjálfkrafa og litum undrandi í kringum okkur. Hvergi hreyfing — aðeins fáeinar kindur á beit. Við ræddum hugfangnir um staðinn, bjugg- umst ekki við öðru en gráu og grýttu fjallaskarði, því enginn hafði lýst leiðinni fyrir okkur. Ef til vill birtist Molduxaskarð ekki heldur nokkurs manns augum fyrr í þessari mynd, þar er enginn alfaravegur, þangað þurfa menn sjaldnast nema í göngum. Við settumst niður hjá tjörninni og áttum bágt með að hafa okkur á stað aftur, sátum lengi á grasi vöfðum bakkanum, dreyptum á köldum drykk og lögðum eyrun að hinni sefandi kyrrð. En tíminn leið og góður spotti eftir í Víðidal. Við öxluðum byrðarnar, og innan stundar hlustuðu þúfnakollar og steinar á skóhljóð okkar frá troðningunum. Ekkert bar við sögu. Það hallaði undan fæti og við komum niður í Hryggjadal, stikluðum þar lækjasprænur og dýjaveitur. Nú seig að kvöldi, hljóðu sumarkvöldi í eyðibyggðum. Tilsýndar sást i bæjarrústirnar á Hryggjum og Gvendarstöðum. Fortíðin — þarna svaf hún í þýfðum túnum og veggjabrotum. Tilhlökkun okkar jókst því nær sem dró Víðdal. Við höfðum heyrt að það væri fríður dalur og grasgefinn, forðum heil kirkjusókn, en lagst í eyði snemma á miðöldum, að öllum líkindum í svartadauða. Þar áttu enn að sjást grónar bæjarleifar, aðallega þó á Helgustöðum, hinum forna kirkjustað. Einnig fylgdi sögunni að til skamms tíma hefði áin grafíð undan kirkjugarðinum og leitt í ljós mannabein. Það þótti okkur ekki verra. Og Víðidalur opnaðist til suðurs. Við rákum ekki upp stór augu líkt og í Molduxa- skarði, sennilega vegna þess að við höfðum gert okkur hugmynd um dalinn. Okkur fannst hann snotur og lágur en ekki jafn grösugur og við héldum. En þar ríkti unaðs- legur friður. Nokkur hross nösluðu á grundunum, og áin kliðaði eins og hún hafði gert frá því land byggðist, og miklu lengur. Hún stillti strengi sína við mannauðan dalinn, þarfnaðist ekki áhorf- enda. Kannski þótti henni samt tilbreyting í komu þessara tveggja gesta, því nú fékk hún tækifæri til að rifja upp gömul svefnhljóð sín. Við fundum grænan þúfna- klasa: Helgastaði í Víðidal, en engin mannabein og urðum dálítið vonsviknir, þó bara fyrst í stað, því brátt höfðum við nóg að sýsla við að koma upp tjaldinu og kveikja á prímusnum. Meðan á því stóð, hlustuðum við á kvöldkulið í stráunum, í von um að það segði einhverjar sögur af því lífi sem lifað var þarna upp til fjallanna löngu fyrir daga prímusa og steinolíu. Og við hlustuðum líka meðan við opnuðum bakpokann og bjuggumst til veislu. Við tíndum fram kakó og búðinga og guð má vita hvað, sátum með vatn í munninum. Ylur var kominn í tjaldið, pottur yfir glaðan eld — en sykurinn, hvar var hann? Ekki í bakpokanum, ekki í svefnpokanum, ekki í vösum okkar; hann var ekki uppi á Víðidal, ekki á Hryggjardal, ekki í Molduxa- skarði, hann var á Króknum, hann var niðri í skúffu hjá Haraldi Júl. Við horfðum hljóðir hvor á annan. Veislunni var lokið! Kakóið í dollunni var ósætt, búðingarnir ósætir, allt var ósætt sem við hugðumst gæða okkur á. Við líktumst mönnum sem ætla að reisa timburhús upp til fjalla, draga að sér efni, flytja það á áfangastað og eru búnir að setja upp vinnuvettlinga þegar þeim verður ljóst að naglarnir eru enn í pakkhús- inu. Veislunni var lokið. Við hertum samt fljótt upp hugann og einsettum okkur að berjast til þrautar. Ef til vill heyrðist okkur kvöld- kulið í stráunum segja: „Fólkið sem hvílir gleymt og grafið utan tjaldstns, varð oft fyrir þyngri raun en þið — og bar hana”. Að minnsta kosti hófum við þegar sykurvinnslu: helltum brjóstsykurmolum í pott og bræddum þá í vatni. Það gekk seint og illa óg kom aldrei að verulegum notum, við spændum í okkur hálfsætan búðing. Að lokum gáfumst við upp á allri matseld og gripum fegins hendi í þann bjarghring sem við ætluðum að fleygja frá okkur stærilátir: ávaxtadósina. Hún, sem varla komst fyrir innan um nestisbirgðinar, varð nú í raun réttri að nestisbirgðum. Niðursoðnar perur bráðnuðu á tungu, hresstu okkur og léttu skapið.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.